Nemendur í grunnskólum voru 46.859 haustið 2021 og hafa ekki áður verið fleiri nemendur í skyldunámi á Íslandi. Grunnskólanemum hefur fjölgað um 171 frá haustinu 2020, eða um 0,4%. Skýringin er aðallega sú að nemendum fjölgar vegna flutnings til landsins.
Í fyrsta skipti eru nú birtar tölur um nemendur í grunnskólum eftir bakgrunni og ná tölurnar aftur til haustsins 2006. Á því tímabili hefur nemendum án erlends bakgrunns fækkað úr rúmlega 37.900 í tæplega 34.700; úr 84,5% grunnskólanema í 74,0%. Á móti vegur að nemendum með erlendan bakgrunn hefur fjölgað, mest innflytjendum af annarri kynslóð, þ.e. þeim sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Þeim fjölgaði úr 230 árið 2006 í rúmlega 2.600 árið 2021. Þá hefur innflytjendum fjölgað á sama tíma úr tæplega 1.000 í tæplega 2.400.
Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2021 höfðu 5.810 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 12,4% nemenda, sem er fjölgun um tæplega 200 nemendur frá árinu áður. Hafa ber í huga að einhverjir þessara nemenda hafa einnig íslensku að móðurmáli.
Skólaárið 2021-2022 störfuðu alls 174 grunnskólar á landinu sem er fjölgun um einn frá fyrra ári.
Um gögnin
Þessar tölur byggja á upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.
Upplýsingar um bakgrunn eru teknar úr mannfjöldagögnum Hagstofu Íslands og er bakgrunni skipt upp í sex flokka. Innflytjendur teljast þeir einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Þá eru einnig birtar upplýsingar um nemendur fædda á Íslandi en annað foreldri er erlent, nemendur fædda erlendis sem hafa íslenskan bakgrunn og nemendur fædda erlendis en annað foreldrið er erlent. Loks eru þeir sem eru án erlends bakgrunns, sem er stærsti hópurinn í grunnskólum landsins.