Áttundi hver kennari var án kennsluréttinda haustið 2018
Á árunum 1998-2008 var hlutfall starfsfólks án kennsluréttinda við kennslu í grunnskólum landsins á bilinu 13-20%. Eftir efnahagshrunið fækkaði réttindalausum kennurum og fór hlutfall þeirra lægst í 4,1% haustið 2012. Síðan 2012 hefur kennurum án kennsluréttinda fjölgað ár frá ári og voru 12,4% af 5.311 starfsmönnum við kennslu haustið 2018. Þá voru 657 starfsmenn við kennslu án kennsluréttinda og hafði fjölgað um 214 frá hausti 2017.
Lægst var hlutfall starfsfólks við kennslu án kennsluréttinda á Norðurlandi eystra, þar sem 9,1% starfsmanna við kennslu voru án réttinda, og í Reykjavík, 9,3%. Hæst var hlutfall starfsfólks við kennslu án réttinda á Vestfjörðum, 27,7%.
Lítil breyting á fjölda karla við kennslu síðustu 20 ár en konum fjölgar
Frá hausti 1998 hefur starfsfólki við kennslu fjölgað úr rúmlega 4.000 í rúmlega 5.300 haustið 2018. Karlar við kennslu voru tæplega 1.100 haustið 1998 og hafði fækkað í rúmlega 900 haustið 2018. Á sama tíma fjölgaði konum úr tæplega 3.000 í tæplega 4.400.
Frá 1998 hefur karlkyns skólastjórum fækkað verulega. Árið 1998 voru þeir 125 en voru 48 talsins haustið 2018. Á sama tíma hefur kvenskólastjórum fjölgað úr 68 í 123.
Mikil fjölgun starfsfólks við stuðning frá 1998
Haustið 2018 störfuðu 8.473 starfsmenn við grunnskóla á Íslandi, 345 fleiri en haustið 2017 (4,2% fjölgun). Sé litið aftur til ársins 1998, þegar gagnasöfnun Hagstofu um grunnskólann hófst, hefur stuðningsaðilum nemenda fjölgað verulega. Þroskaþjálfum hefur fjölgað hlutfallslega mest, úr 29 í 213 haustið 2018. Stuðnings- og uppeldisfulltrúum hefur fjölgað úr 247 í 1.161. Fjöldi sérkennara og skólasálfræðinga/námsráðgjafa hefur meira en tvöfaldast á þessu sama tímabili. Ef tekið er mið af öllum starfsmönnum grunnskóla, hefur starfsmönnum fjölgað um 39,1% frá hausti 1998 en á sama tíma hefur nemendum fjölgað um 8,2%.
Nemendur í grunnskólum aldrei fleiri
Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 45.904 haustið 2018 og hafa aldrei verið fleiri. Nemendum fjölgaði um 709 (1,6%) frá fyrra ári.
Alls starfa 169 grunnskólar á landinu skólaárið 2018-2019, sami fjöldi og árið áður. Einkaskólar voru 13 talsins, einum fleiri en síðastliðið skólaár, með rúmlega 1.100 nemendur. Í sérskólum, sem voru þrír talsins, stunduðu 163 nemendur nám, lítið eitt færri en undanfarið skólaár. Fjölmennustu grunnskólar landsins skólaárið 2018-2019 eru í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur; Varmárskóli og Hörðuvallaskóli með rúmlega 900 nemendur, og Hraunvallaskóli þar sem eru tæplega 800 nemendur. Fámennasti grunnskólinn er Grímseyjarskóli þar sem 3 nemendur stunduðu nám haustið 2018.
Grunnskólanemendur með erlent móðurmál hafa aldrei verið fleiri
Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári frá því að Hagstofan hóf að safna þeim upplýsingum. Haustið 2018 höfðu 4.874 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 10,6% nemenda, sem er fjölgun um rúmlega 400 nemendur frá árinu áður. Hafa ber í huga að einhverjir þessara nemenda hafa einnig íslensku sem móðurmál. Algengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum er pólska, sem er töluð af rúmlega 1.700 nemendum, tæplega 350 tala filippseysk mál og á þriðja hundrað nemenda tala ensku, lithásku eða taílensku.
Nemendum með erlent ríkisfang fjölgaði einnig frá fyrra ári og eru rúmlega 2.500 haustið 2018.