FRÉTT MENNTUN 03. ÁGÚST 2016

Kennarar án kennsluréttinda voru 5,4% starfsfólks við kennslu haustið 2015
Á árunum 1998–2008 var hlutfall starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins, sem var án kennsluréttinda, á bilinu 13–20%. Hlutfallið lækkaði eftir hrun um allt land og fór lægst í 4,1% haustið 2012. Síðan 2012 hefur kennurum án kennsluréttinda fjölgað ár frá ári og voru 5,4% haustið 2015. Þá var 261 starfsmaður við kennslu án kennsluréttinda og hafði fjölgað úr 216 haustið 2014.

Lægst var hlutfall kennara án kennsluréttinda á landinu í Reykjavík, þar sem 2,4% kennara vou án kennsluréttinda, og á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, 3,9%. Á tveimur landsvæðum var hlutfall kennara án réttinda hærra en 10%, á Vestfjörðum (16,9%) og á Suðurnesjum (14,5%). Á Vesturlandi og Norðurlandi vestra lækkaði hlutfall kennara án kennsluréttinda frá fyrra ári og hlutfallið var óbreytt á Austurlandi.

Körlum fækkar meðal starfsfólks við kennslu í grunnskólum
Haustið 2015 störfuðu 884 karlar við kennslu í grunnskólum landsins, 18,1% starfsfólks við kennslu. Körlum hefur farið hægt fækkandi meðal kennara frá 1998, þegar karlar voru 26,0% starfsfólks við kennslu. Á sama tíma hefur konum við kennslu fjölgað og voru 3.992 haustið 2015.

Haustið 2015 voru 112 konur starfandi skólastjórar í grunnskólum á Íslandi en voru 68 haustið 1998. Á sama tíma fækkaði körlum í skólastjórastétt úr 125 og voru 61 haustið 2015.

Meðalaldur kennara í grunnskólum heldur áfram að hækka
Meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum hefur farið hækkandi frá árinu 2000. Haustið 2000 var meðalaldur starfsfólks við kennslu 42,2 ár en var 46,6 ár haustið 2015. Á þessu tímabili hefur meðalaldur kvenkennara hækkað meira eða úr 41,8 árum í 46,6 ár. Meðalaldur karlkennara hefur hækkað úr 43,6 árum í 46,5 ár. Meðalaldur starfsfólks við kennslu án réttinda er töluvert lægri en réttindakennara og hefur svo verið á öllu tímabilinu. Haustið 2015 var meðalaldur kennara með kennsluréttindi 47,0 ár en meðalaldur kennara án kennsluréttinda 39,0 ár.

Myndin hér á eftir sýnir aldursskiptingu starfsfólks við kennslu. Fækkun kennara undir þrítugu er áberandi, á meðan kennurum sem eru 50 ára og eldri fjölgaði úr 23,7% kennara haustið 1998 í 40,8% haustið 2015.

Nemendum í grunnskólum fjölgar áfram
Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 43.760 haustið 2015. Nemendum fjölgaði um 624 (1,4%) frá fyrra ári og hafa ekki verið fleiri síðan haustið 2007. Haustið 2015 stunduðu auk þess 94 börn nám í 5 ára bekk, 20 færri en haustið 2014.

Alls störfuðu 168 grunnskólar á landinu skólaárið 2015–2016, sem er fjölgun um einn skóla frá fyrra ári. Grunnskólum hefur farið fækkandi undanfarin ár vegna sameiningar og hefur fækkað um 28 skóla frá árinu 1998. Einkaskólarnir voru 11 talsins með 1.072 nemendur haustið 2015 og eru nemendur í 5 ára bekk undanskildir. Nemendum í einkaskólum fækkaði um 62 frá fyrra skólaári, eða 5,5%. Í sérskólum, sem voru þrír talsins, stundaði 161 nemandi nám, lítið eitt fleiri en undanfarin ár.

Grunnskólanemendum með erlent móðurmál fjölgar áfram
Nemendum sem skráðir voru með erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári frá því að Hagstofan hóf að safna inn þeim upplýsingum. Haustið 2015 höfðu 3.543 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 8,1%, sem er 0,6 prósentustigi meira en árið áður. Algengasta erlenda móðurmál nemenda var pólska (1.282 nemendur), þá filippseysk mál (336 nemendur) og enska (240 nemendur).

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.