Nýnemum á framhaldsskólastigi fer fækkandi og sífellt fleiri nýnemar kjósa að hefja framhaldsskólanám í bóknámi fremur en starfsnámi. Á tímabilinu 1997-2016 voru nýnemar á framhaldsskólastigi fæstir árið 2002, 4.268, en flestir 2006, 5.429 talsins. Fjöldi nýnema helst í hendur við fjölda 16 ára íbúa, en haustið 2006 hóf einmitt fjölmennur árgangur 16 ára landsmanna nám í framhaldsskóla. Haustið 2016 voru nýnemar á framhaldsskólastigi 4.595 talsins. Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn tölur um nýnema á framhaldsskólastigi á árunum 1997-2016.

Nýnemum í starfsnámi fer fækkandi
Á fyrri hluta tímabilsins 1997-2016 hóf um fjórðungur nýnema á framhaldsskólastigi nám á starfsnámsbrautum. Hlutfallið hefur farið lækkandi á undanförnum árum en árið 2016 völdu rúmlega 16% nýnema starfsnám. Hluti skýringarinnar á þessari fækkun er sú að sumir nemendur í starfsnámi hefja framhaldsskólanám með námi á bóknámsbraut, t.d. almennri braut, áður en þeir hefja starfsnám og teljast því með nýnemum í bóknámi.

Piltar eru í meirihluta meðal nýnema í starfsnámi en stúlkur voru stærri hluti nýnema í bóknámi. Munurinn á milli kynjanna í bóknámi minnkaði þó á tímabilinu. Árið 1997 voru stúlkur rúmlega 57% nýnema í bóknámi en tæplega 53% árið 2016. Piltar voru tæplega 61% nýnema í starfsnámi árið 1997 og rúm 64% árið 2016.

Flestir nýnemar á framhaldskólastigi eru 16 ára
Langflestir nýnemar eru 16 ára árið sem þeir hefja nám á framhaldsskólastigi og voru 16 ára nýnemar á þessu tímabili flestir 90,7% nýnema árið 2016, 4.166 talsins. Að sama skapi hefur þeim fækkað sem hefja nám á framhaldsskólastigi 17 ára og eldri. Þeir voru fæstir 722 og flestir 1.122 á árunum 1997-2009 en fækkaði í 561 árið 2010 og voru 369 árið 2016, 8,0% nýnema. Auk þess voru 60 nýnemar í framhaldsskólum árið 2016 15 ára og yngri. Að hluta til má skýra þessa þróun með því að síðan árið 2002 hafa yfir 90% nemenda hafið nám á framhaldsskólastigi árið sem þeir verða 16 ára og því fækkar þeim landsmönnum stöðugt sem aldrei hafa stundað nám á framhaldsskólastigi.

Nýnemar í starfsnámi almennt eldri en nýnemar í bóknámi
Meðalaldur nema við upphaf starfsnáms var talsvert hærri en meðal nema við upphaf bóknáms árin 1997-2016. Í starfsnámi voru nýnemar að meðaltali tæplega 22 ára gamlir en tæplega 19 ára í bóknámi þegar allt tímabilið er skoðað. Hér er litið til þess að sumir nýnemar í starfsnámi höfðu áður stundað nám á bóknámsbraut þegar þeir hófu starfsnám.

Meðalaldur nema við upphaf bóknáms hefur farið lækkandi frá árinu 1997 þegar hann var tæplega 21 ár og var kominn niður í rétt rúmlega 17 ár árið 2016. Ekki má sjá sömu lækkun á meðalaldri hjá nýnemum í starfsnámi en hann hefur sveiflast á milli rúmlega 20 ára til tæplega 24 ára. Árið 2016 var meðalaldur hjá nýnemum í starfsnámi tæplega 22 ár.

Nýnemum með erlendan bakgrunn fjölgar
Þegar nýnematölur eru skoðaðar eftir bakgrunni sést að nýnemum af erlendum bakgrunni fjölgaði talsvert á tímabilinu, enda hefur íbúum í landinu með erlendan bakgrunn fjölgað. Þegar tölur um 16 ára nýnema eftir bakgrunni voru bornar saman við mannfjöldann á sama aldri má sjá að nýnemar eru hærra hlutfall 16 ára íbúa árið 2016 en árið 1997 óháð bakgrunni, að undanskildum nemendum af annarri kynslóð innflytjenda. Í þeim hópi voru aðeins þrír 16 ára íbúar árið 1997 og voru þeir allir nýnemar á framhaldsskólastigi.


Árin 2012-2016 var að meðaltali lítill munur á hlutfalli 16 ára nýnema meðal annarrar kynslóðar innflytjenda (95,5%), nemenda sem ekki hafa erlendan bakgrunn (95,2%), nemenda sem eru fæddir erlendis en með íslenskan bakgrunn (93,6%) og þeirra sem eru fæddir á Íslandi en eiga annað foreldrið erlent (91,8%). Hins vegar var hlutfall 16 ára nýnema meðal þeirra sem eru fæddir erlendis og eiga annað foreldrið erlent nokkru lægra þessi ár eða 84,3% og lægst var hlutfall nýnema meðal innflytjenda, 82,3%. Innflytjendur eru þeir sem eru fæddir erlendis og báðir foreldrar eru erlendir.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Nýnemar eru þeir sem stunda nám í fyrsta skipti á framhaldsskólastigi á Íslandi samkvæmt nemendagögnum Hagstofu Íslands. Nám er flokkað í bóknám og starfsnám samkvæmt alþjóðlegu menntunarflokkuninni ISCED 2011. Bakgrunnur nemenda tekur mið af mannfjöldagögnum Hagstofu Íslands.

Talnaefni