Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn tölur um nýnema á háskólastigi á Íslandi. Ítarlega umfjöllun um nýnemana má finna í hefti í ritröðinni Hagtíðindi.
Nýnemum hefur fjölgað um rúm 70% frá hausti 1997
Nýnemar á háskólastigi á Íslandi voru 3.379 haustið 2007 og hafði fjölgað um 70,7% frá hausti 1997. Nýnemar á háskólastigi eru skilgreindir sem þeir nemendur sem stunda nám á háskólastigi á Íslandi samkvæmt nemendaskrá Hagstofu Íslands og hafa ekki áður stundað nám á háskólastigi frá upphafi nemendaskrár Hagstofunnar. Bráðabirgðatölur fyrir haustið 2008 benda til þess að nýnemar hafi verið 3.667, eða fleiri en nokkurt ár frá 1997. Nýnemum fjölgaði mikið haustið 1999 og aftur haustin 2002 og 2003. Konur eru að jafnaði um 60% nýnema.
Nýnemar eru fleiri en útskrifaðir stúdentar
Um 2.500 stúdentar útskrifast árlega úr íslenskum framhaldsskólum og því eru nýnemar mun fleiri en útskrifaðir stúdentar á Íslandi. Um þriðjungur nýnema haustið 2007 hafði lokið stúdentsprófi á Íslandi skólaárið 2006-2007 en rúmlega 37% (1.263) höfðu ekki lokið stúdentsprófi á Íslandi á skólaárunum 1995-2007. Þar af voru 507 erlendir ríkisborgarar.
Tölurnar gefa vísbendingu um að 74,6% ungs fólks sæki háskólanám
Um 40% nýnema eru 21 árs og yngri en tíundi hver nýnemi er 40 ára eða eldri við upphaf háskólanáms. Haldist núverandi aldursskipting nýnema má áætla að í framtíðinni sæki 74,6% ungs fólks háskólanám. Nýnemar í fræðilegu háskólanámi haustið 2007 voru 3.332 talsins, 333 hófu starfstengt háskólanám í fyrsta sinn og nýnemar í doktorsnámi voru 83 talsins. Nýnemum í doktorsnámi á Íslandi hefur fjölgað áttfalt frá haustinu 1997, þegar þeir voru 10 talsins. Rúmlega þriðjungur nýnema stundar nám í félagsvísindum, viðskiptafræði eða lögfræði.
Erlendum nýnemum hefur fjölgað fimmfalt á árunum 1997-2007
Fjöldi erlendra nýnema í íslenskum háskólum hefur fimmfaldast frá hausti 1997. Þeir eru einn af hverjum fjórum nýnemum á doktorsstigi og koma flestir frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Endurskráðir nemendur voru 2.754 haustið 2007
Endurskráðum nemendum hefur fjölgað þrefalt frá haustinu 1997 og voru 2.754 haustið 2007. Endurskráðir eru þeir nemendur sem hafa hafið nám að nýju á háskólastigi eftir að hafa tekið sér námshlé í a.m.k. eitt ár. Flestir endurskráðir nemendur snúa aftur til náms á grunnstigi háskólanáms en endurskráðir nemar á meistarastigi haustið 2007 eru 1.055, níu sinnum fleiri en haustið 1997.
Nýnemar á háskólastigi 1997-2007 - Hagtíðindi