FRÉTT MENNTUN 10. MAÍ 2011


Fjöldi nýnema á háskólastigi hefur tæplega tvöfaldast frá hausti 1997
Nýnemar á háskólastigi á Íslandi voru 3.898 haustið 2010 og hafði fjöldi þeirra tæplega tvöfaldast frá hausti 1997. Nýnemar á háskólastigi voru enn fleiri haustið 2009 eða 4.372 og hafa aldrei verið fleiri. Nýnemar eru skilgreindir sem þeir nemendur sem stunda nám á háskólastigi á Íslandi samkvæmt nemendaskrá Hagstofu Íslands og hafa ekki áður stundað nám á háskólastigi frá upphafi nemendaskrár Hagstofunnar árið 1975.

Karlar voru að jafnaði tæplega 40% nýnema frá 1997 til 2007. Árin 2008-2010 er hlutfall karla yfir 40% öll árin og hæst árið 2010, 43,5%. Fjölgun nýnema í yngstu aldurshópunum er áberandi síðustu ár. Þannig voru nemendur 20 ára og yngri 20,5% nýnema haustið 2007 en 27,5% haustið 2010. Þessar tölur benda til þess að fjölgun háskólanema síðustu ár hafi ekki aðeins verið tilkomin vegna eldri nemenda sem sneru aftur í nám heldur hafi fjölmargir ungir nemendur skráð sig til háskólanáms í fyrsta sinn.

Haldist núverandi aldursskipting nýnema munu 83% ungs fólks stunda háskólanám
Nettó innritunarhlutfall gefur til kynna hversu stór hluti ungs fólks mun sækja háskólanám í framtíðinni haldist núverandi aldursskipting nýnema. Það er reiknað þannig að fundið er hlutfall nýnema eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er lagt saman fyrir alla aldurshópa. Hlutfallið hefur aldrei verið hærra en árið 2009, þegar það var 94,0% en lækkaði niður í 83,0% árið 2010.

 

Nýnemar eru fleiri en útskrifaðir stúdentar
Skólaárið 2008-2009 brautskráðust 3.012 stúdentar frá íslenskum framhaldsskólum og höfðu aldrei verið fleiri. Nýnemar eru mun fleiri en útskrifaðir stúdentar á Íslandi, m.a. vegna eldri stúdenta sem hefja háskólanám, vegna nemenda sem eru teknir inn í háskólanám án þess að hafa lokið stúdentsprófi og vegna erlendra nemenda sem stunda nám á Íslandi. Erlendir ríkisborgarar meðal nýnema voru 745 haustið 2010 eða tæpur fimmtungur nýnema (19,1%), hlutfallslega flestir á doktorsstigi (29.5%).

Körlum fjölgar mikið meðal endurskráðra nemenda
Endurskráðum nemendum hefur fjölgað meira en þrefalt frá haustinu 1997 og voru 3.214 haustið 2010. Endurskráðir eru þeir nemendur sem hafa hafið nám að nýju á háskólastigi eftir að hafa tekið sér námshlé í a.m.k. eitt ár. Sumir endurskráðir nemendur höfðu verið brautskráðir og snúa aftur til náms en aðrir snúa aftur til að ljúka námi sem þeir hurfu frá. Körlum meðal endurskráðra nemenda fjölgaði um fjórðung frá árinu 2008 til 2009, úr 801 í 1.001 (25,0%). Á sama tíma fjölgaði konum meðal endurskráðra nemenda um 5,8%, úr 1.829 í 1.935.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.