Nýnemar á framhaldsskólastigi voru 4.489 haustið 2017 og fækkaði um 2,4% milli ára. Nýnemum sem völdu starfsnám fjölgaði aftur eftir fækkun síðustu ár og fjölgaði stúlkum meira í þeim hópi en piltum. Þá fjölgaði nýnemum með erlendan bakgrunn um tæp tvö prósentustig milli ára.
Fjölgun nýnema í starfsnámi
Nýnemar á framhaldsskólastigi sem velja starfsnám voru 736 haustið 2017 og er það fjölgun um 9,4% frá fyrra ári. Stúlkum fjölgaði meira en piltum, um 19,2%. Karlkyns nýnemar í starfsnámi voru 475 haustið 2017 og er það fjölgun um 4,6% frá 2016. Þrátt fyrir töluverða fjölgun stúlkna meðal nýnema í starfsnámi eru piltar þó enn í miklum meirihluta, 64,5% nýnema.
Nýnemum sem velja bóknám fækkaði milli ára og voru þeir 3.753 haustið 2017 sem er fækkun um 4,4%. Stúlkur voru í meirihluta nýnema í bóknámi, 51,8%.
Nýnemum með erlendan bakgrunn fjölgar
Nýnemum með erlendan bakgrunn fjölgaði frá fyrra ári en um 19,1% allra nýnema höfðu erlendan bakgrunn haustið 2017. Til nýnema með erlendan bakgrunn teljast innflytjendur, önnur kynslóð innflytjenda og nemendur sem eiga eitt erlent foreldri. Nýnemum með erlendan bakgrunn fjölgaði um tæplega tvö prósentustig milli ára en mest var fjölgunin meðal annarrar kynslóðar innflytjenda, úr 49 í 64 (30,6%) og innflytjenda, úr 332 í 392 (18,1%).
Níu af hverjum tíu nýnemum á framhaldsskólastigi eru 16 ára
Langflestir nýnemar á framhaldsskólastigi voru 16 ára, 4.013 talsins eða 89,4% allra nýnema. Fækkun nýnema eftir aldri var mest meðal 17 ára nýnema, 12,8%, úr 117 í 102. Nýnemum 15 ára og yngri fjölgaði um tæp 19% en þeir voru 70 talsins haustið 2017. Sömuleiðis fjölgaði nýnemum í öllum aldurshópum frá 25 ára aldri.
Stúlkum fækkaði um 4% milli ára og voru 2.204 haustið 2017, um 49% nýnema á framhaldsskólastigi. Piltum fækkaði um 0,7% frá 2016 og voru 2.285 haustið 2017.
Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Nýnemar eru þeir sem stunda nám í fyrsta skipti á framhaldsskólastigi á Íslandi samkvæmt nemendagögnum Hagstofu Íslands. Nám er flokkað í bóknám og starfsnám samkvæmt alþjóðlegu menntunarflokkuninni ISCED 2011. Bakgrunnur nemenda tekur mið af mannfjöldagögnum Hagstofu Íslands.