Hagstofa Íslands birtir nú upplýsingar um starfstíma í framhaldsskólum skólaárið 2004–2005. Í lögum um framhaldsskóla segir að árlegur starfstími nemenda skuli eigi vera skemmri en níu mánuðir, þar af skuli kennsludagar ekki vera færri en 145. Samkvæmt upplýsingum frá framhaldsskólum var fjöldi reglulegra kennsludaga skólaárið 2004-2005 á bilinu 140 til 158. Meðalfjöldi reglulegra kennsludaga var 145 sem er degi minna en skólaárið á undan. Auk þeirra voru aðrir kennsludagar á bilinu 0 til 6 (með einni undantekningu), eða 2 að meðaltali. Að meðaltali voru reglulegir kennsludagar nemenda þremur fleiri á vorönn en á haustönn.
Í reglugerð um starfstíma framhaldsskóla er ákvæði um að kennslu- og prófdagar skuli ekki vera færri en 175. Í 16 skólum reyndust kennslu- og prófdagar vera færri en 175.
Samkvæmt upplýsingum skóla var fjöldi daga sem einungis var varið til prófa og námsmats frá 14 til 34, með einni undantekningu. Að meðaltali var 26 dögum varið til prófa og námsmats sem er fjölgun um einn dag frá síðastliðnu skólaári.
Í kjarasamningum kennara er gert ráð fyrir samtals 175 kennslu- og prófdögum á níu mánaða starfstíma skóla og að auki fjórum vinnudögum kennara utan árlegs níu mánaða starfstíma. Heildarfjöldi vinnudaga kennara á skólaárinu 2004-2005 reyndist vera frá 173 til 185. Meðalfjöldi allra vinnudaga kennara var 180, og er það fækkun um einn dag frá skólaárinu 2003–2004. Þar af voru að meðaltali 176 á árlegum starfstíma skóla.
Gagna um fjölda kennsludaga, prófdaga og annarra vinnudaga kennara var aflað frá 34 framhaldsskólum. Nýr skóli bættist við gagnasöfnunina, Fjölbrautaskóli Snæfellinga. Þá hefur Fjöltækniskóli Íslands orðið til við sameiningu Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands. Tveir skólar, Menntaskólinn Hraðbraut og Snyrtiskólinn, starfa eftir þriggja anna kerfi og eru ekki taldir með í meðaltölunum hér að ofan.
Talnaefni