FRÉTT MENNTUN 08. FEBRÚAR 2016

Skólaárið 2014-2015 fengu 12.263 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðning, eða 28,4% allra nemenda. Það er fjölgun um 60 nemendur frá fyrra skólaári. Fjöldinn hefur ekki verið meiri frá því að Hagstofan hóf innsöfnun um sérkennslu skólaárið 2004-2005 en hlutfall nemenda sem fékk sérkennslu var lítið eitt hærra skólaárið 2013-2014, 28,6%. Af þeim nemendum sem fengu stuðning voru 61,5% drengir og 38,5% stúlkur. Nemendum sem hafa erlent móðurmál og fá stuðning vegna íslenskunáms hefur fjölgað um 64,6% á undanförnum fimm árum og voru 2.374 skólaárið 2014-2015, um 900 færri en nemendur með erlent móðurmál.

 

Fjölgun kennslustunda til sérkennslu og stuðnings
Skólaárið 2014-2015 var 49.054 kennslustundum á viku varið til sérkennslu og stuðnings í grunnskólum landsins og hafa ekki verið fleiri síðan Hagstofan hóf að safna þessum upplýsingum skólaárið 2004-2005. Þar af voru 18.586 kennslustundir sérkennara (37,9%) og 30.468 kennslustundir stuðningsfulltrúa (62,1%). Hlutfall kennslu sérkennara hefur farið lækkandi undanfarin ár, en það var hæst skólaárið 2004-2005, eða 43,6%.

Fleiri yngri grunnskólanemendur læra ensku
Grunnskólanemendum sem læra erlend tungumál fjölgar ár frá ári og eru fleiri yngri nemendur að læra erlend tungumál. Skólaárið 2014-2015 lærðu 81,5% grunnskólanema erlent tungumál og hafa ekki verið fleiri síðan gagnasöfnun hófst skólaárið 1999-2000.

Enska er fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum og það tungumál sem flestir nemendur læra. Skólaárið 2014-2015 lærðu 35.388 börn ensku í grunnskólum, 82,0% nemenda, sem er fjölgun um 1,1 prósentustig frá fyrra skólaári. Kennsla í ensku hefst oftast í 4. bekk en þó er enska kennd í 1.-3. bekk í mörgum skólum. Síðastliðið skólaár lærðu 6.282 börn í 1.-3. bekk ensku eða tæplega helmingur barna í þessum aldurshópi (46,4%). samanborið við 506 börn (4,0% nemenda) fyrir áratug.

Fleiri nemendur í 1.-6. bekk læra dönsku
Nemendur hefja nú flestir dönskunám í 7. bekk, eða við 12 ára aldur. Vert er að geta þess að 1.559 nemendur í 1.-6. bekk lærðu dönsku skólaárið 2014-2015 (5,9%) en voru 1.102 árið á undan (4,3%). Ekki er verið að auka dönskukennslu heldur dreifa henni á fleiri árganga.

Í mörgum skólum geta nemendur sem hafa kunnáttu í norsku eða sænsku valið þau tungumál í stað dönsku. Á síðasta skólaári lærðu 118 börn sænsku frekar en dönsku og 79 börn lærðu norsku. Fjöldi nemenda í norsku og sænsku hefur lítið breyst undanfarin ár.



Nemendum sem læra þrjú erlend tungumál fækkar
Grunnskólanemendum sem læra þrjú tungumál hefur farið fækkandi frá skólaárinu 2001-2002 þegar þeir voru flestir, 1.656 talsins. Á síðastliðnu skólaári lærðu 522 grunnskólanemendur þrjú tungumál eða fleiri. Þriðja tungumál er yfirleitt kennt sem valgrein í íslenskum grunnskólum og þá helst á unglingastigi.

Spænska hefur verið algengasta þriðja erlenda tungumálið á unglingastigi frá skólaárinu 2007-2008. Á síðasta skólaári lærðu 253 unglingar spænsku, 119 frönsku og 112 þýsku.

Skóladagar voru 179,1 að meðaltali
Meðalfjöldi skóladaga allra bekkja 2014-2015 var 179,1 og er það fjölgun um 0,9 daga frá meðaltali síðasta árs. Helsta skýring á fjölguninni er einn verkfallsdagur grunnskólakennara skólaárið 2013-2014. Í lögum um grunnskóla frá árinu 2008 segir að árlegur starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skuli ekki vera færri en 180 á hverju skólaári.

Skólaárið 2014-2015 fengu nemendur í 1.-10. bekk samanlagt 340,6 kennslustundir og hefur vikulegum kennslustundum fjölgað um 0,4 að meðaltali frá skólaárinu 2013-2014. Að meðaltali náðu allir árgangar viðmiðum laga um lágmarkstundafjölda á viku.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.