FRÉTT MENNTUN 19. FEBRÚAR 2024

Kórónuveirufaraldurinn (Covid-19) hafði mikil áhrif á skólastarf á Íslandi frá vori 2020 og næstu tvö skólaár á eftir en faraldurinn hafði hins vegar engin áhrif á skóladaga skólaárið 2022-2023.

Áhrifin á skóladaga í grunnskólum voru mest fyrsta árið. Að meðaltali féll kennsla niður vegna kórónuveirufaraldursins í 2,6 daga vorið 2020, skertir dagar voru 13,9 talsins og fjarkennsludagar voru 5,5 að meðaltali. Áhrifin voru minni skólaárið 2020-2021 og enn minni skólaárið 2021-2022.

Áhrif kórónuveirufaraldursins komu misjafnlega niður á nemendum og meðalfjöldi skóladaga segir aðeins hluta sögunnar. Tæplega þriðjungur (32,2%) grunnskólanemanda missti ekki úr skóladag vegna faraldursins skólaárið 2019-2020 og rúmlega 22.700 nemendur (49,1%) misstu úr einn eða tvo daga vegna lokunar skóla. Hins vegar varð faraldurinn til þess að rúmlega 250 nemendur misstu fleiri en 20 kennsludaga skólaárið 2019-2020, mest 26 daga.

Þegar litið er yfir allt tímabil kórónuveirufaraldursins voru dagar þegar kennsla var skert vegna faraldursins frá engum í sumum skólum upp í 43 skólaárið 2019-2020. Skertir dagar voru flestir 74 í einum skóla skólaárið 2020-2021 og mest 32 dagar 2021-2022.

Kennsla féll síður niður hjá yngri börnum
Tölur Hagstofunnar sýna að kennsla féll síður niður hjá yngri börnum og fjarkennsla var mest notuð fyrir elstu árgangana. Þegar litið er á samtölu skertra daga, fjarkennsludaga og daga þegar kennsla féll niður (hér kallað breyttir skóladagar) má sjá að mestu munar á milli árganga skólaárið 2020-2021. Þá voru breyttir skóladagar tæplega sex talsins hjá 1.-4. bekk en rúmlega 16 í 8.-10. bekk.

Kennsla féll niður í tæplega 130 þúsund nemendadaga vorið 2020
Þegar tölur yfir daga þegar kennsla féll niður eru teknar saman og margfaldað með fjölda nemenda sem misstu kennsludaga (hér kallað nemendadagar) má sjá að kennsla féll niður í tæplega 130 þúsund nemendadaga skólaárið 2019-2020 sem féllu allir á vormisseri 2020. Skólaárið 2020-2021 voru nemendadagarnir þegar kennsla féll niður rúmlega 100 þúsund og rúmlega 25 þúsund skólaárið 2021-2022.

Um gögnin
Niðurstöðurnar koma úr árlegri gagnasöfnun Hagstofunnar frá grunnskólum en bætt var við spurningum um áhrif kórónuveirufaraldursins á skipulag skólastarfsins frá vori 2020. Beðið var um tölur eftir árgöngum um fjölda daga þar sem kennsla féll niður, daga þar sem var skert kennsla og daga þar sem fjarkennsla var viðhöfð. Nemendatölurnar sem hér eru gefnar upp miða við að allir nemendur árgangs í viðkomandi skóla hafi sótt skóla þegar kennsla var í boði. Tölurnar sýna því ekki nemendur sem voru heima þegar staðnám var í boði.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.