FRÉTT MENNTUN 27. APRÍL 2005
Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um fjölda nemenda á framhalds- og háskólastigi og um skólasókn ungmenna á aldrinum 16-29 ára eins og hún var á miðju haustmisseri 2004.

Skólasókn 16 ára ungmenna hefur aldrei verið meiri og náð 93%
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2004 var 93% sé miðað við öll kennsluform (dagskóla, kvöldskóla, utanskóla og fjarnám). Skólasóknin hefur aukist um rúmlega eitt prósentustig frá fyrra ári. Skólasókn 16 ára nemenda hefur nú mælst yfir 90% í þrjú ár í röð.

Skólasókn 17 ára ungmenna er 10 prósentustigum lægri en 16 ára
Athyglisvert er hversu margir nemendur hverfa frá námi eða taka sér tímabundið hlé á öðru eða þriðja ári framhaldsskólans. Þegar skólasókn 17 ára árgangsins haustið 2004 er borin saman við skólasókn 16 ára á sama tíma mælist skólasókn 10 prósentustigum lægri að jafnaði. Munur á skólasókn árganga er nokkuð mismunandi eftir landshlutum. Á höfuðborgarsvæði utan Reykjavíkur, Vestfjörðum og Austurlandi eru hlutfallslega fleiri nemendur í skóla við 17 ára aldur en í öðrum landshlutum, 84-87%. Hins vegar sækja hlutfallslega fæstir 17 ára nám á Suðurnesjum og Suðurlandi, 75 og 80%. Á Suðurnesjum er skólasókn 17 ára ungmenna 15 prósentustigum lægri og skólasókn 18 ára ungmenna 28 prósentustigum lægri en 16 ára ungmenna. Þetta er áberandi minni skólasókn en sjá má hjá sömu aldurshópum á öðrum landsvæðum.

Minnkandi skólasókn á fyrstu árum framhaldsskólans má skoða sem vísbendingu um brottfall. Þó verður að hafa í huga að minnkandi skólasókn með hækkandi aldri getur skýrst af öðrum þáttum. Sumir nemendur hafa t.d. lokið prófum og verið brautskráðir úr skóla en aðrir tekið sér tímabundið hlé frá námi.

Mun fleiri stúlkur en piltar sækja skóla
Skólasókn 16 ára pilta á landsvísu er 92% en 16 ára stúlkna 94%. Athyglisverður er sá munur sem sjá má á kynjunum í kringum tvítugt. Við 19 ára aldur er skólasókn karla 66% en kvenna 73%. Við 20 ára aldurinn er munur á skólasókn kynjanna hins vegar hverfandi (56% og 57%). Um tvítugt eru nemendur að jafnaði að útskrifast úr framhaldsskólum. Því má ætla að stúlkur hafi þá þegar útskrifast og tekið sér tímabundið hlé frá námi á meðan piltarnir eru ennþá skráðir í skóla. Þegar komið er á háskólaaldur dregur sundur með kynjunum konum í hag og er munurinn mestur við 22 ára aldur, um 12 prósentustig. Munur á skólasókn kynjanna helst síðan nálægt 10 prósentustigum allt til 29 ára aldurs. Þessi munur endurspeglast í tölum um fjölda kvenna og karla í háskólum á landinu þar sem konur eru umtalsvert fleiri. Þegar eldri aldurshópar eru skoðaðir, t.d. 40 ára og eldri, kemur í ljós að konum í skólum hefur fjölgað töluvert meira en körlum. Á framhaldsskólastigi eru konur þrír fjórðu nemenda yfir fertugu og 71% nemenda á háskólastigi á sama aldri.

Skólasókn 16 ára stúlkna á Suðurlandi er 97%
Þegar skólasókn 16 ára drengja og stúlkna er skoðuð eftir landsvæðum má sjá athyglisvert mynstur. Drengir sækja skóla í meira mæli en stúlkur á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og munar þar innan við einu prósentustigi. Á öðrum landssvæðum er þessu öfugt farið og er munur á skólasókn kynjanna mestur á Austurlandi. Þar sækja 87% 16 ára drengja skóla á móti 95% 16 ára stúlkna. Stúlkur á Suðurlandi sækja skóla í mestum mæli (97%) en skólasókn 16 ára er minnst hjá drengjum á Austurlandi.

Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember 2004 og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum árgangi á sama tíma.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.