FRÉTT MENNTUN 29. MAÍ 2006

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um fjölda nemenda og um skólasókn í framhaldsskólum og háskólum eins og hún var á miðju haustmisseri 2005.

Fleiri en 100 þúsund nemendur stunda nám á öllum skólastigum
Á skólaárinu 2005-2006 er heildarfjöldi nemenda á Íslandi á öllum skólastigum í fyrsta skipti meiri en 100 þúsund. Á yfirstandandi skólaári stunda 101.171 nemendur nám á Íslandi frá leikskólastigi til háskólastigs. Að auki stunduðu 2.237 nemendur nám erlendis. Nemendum á Íslandi hefur fjölgað um 1.208 frá hausti 2004, eða um 1,2%.
Haustið 2005 voru nemendur á framhaldsskólastigi á Íslandi alls 23.345 talsins og nemendur á háskólastigi 16.626. Á báðum skólastigum fjölgaði nemendum um 3,3% frá hausti 2004. Konur eru 52,1% nemenda á framhaldsskólastigi og 62,8% nemenda á háskólastigi. Tvöfalt fleiri nemendur stunda nám á háskólastigi haustið 2005 en voru í námi haustið 1997.

Skólasókn 16 ára ungmenna hefur aldrei verið meiri og náði 94%
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2005 var 94% sé miðað við öll kennsluform (dagskóla, kvöldskóla, utanskóla og fjarnám). Skólasókn 16 ára ungmenna hefur aukist um tæplega eitt prósentustig frá fyrra ári. Skólasókn 16 ára nemenda hefur náð 90% á hverju ári frá árinu 2000. Skólasókn 17 ára ungmenna er 10 prósentustigum lægri en skólasókn 16 ára nemenda, eða 84%, sem er aukning um innan við eitt prósentustig frá hausti 2004.


Skólasókn minnkar meðal 18-20 ára nemenda
Skólasókn meðal 18-20 ára nemenda er minni haustið 2005 en árið áður. Þannig stunda 73% 18 ára nemenda nám haustið 2005 en 75% árið áður. Skólasókn 20 ára nemenda hefur lækkað um 3 prósentustig frá haustinu 2004, úr 56% í 53% af aldurshópnum. Þegar litið er aftur til ársins 1999 hefur skólasókn aukist í öllum aldurshópum 16-29 ára. Minnkandi skólasókn með hækkandi aldri getur skýrst af því að sumir nemendur hafi lokið prófum og verið brautskráðir úr skóla en aðrir tekið sér tímabundið hlé frá námi.
Skólasókn er yfirleitt mest á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og í Reykjavík. Þó vekur athygli að 98% 16 ára ungmenna á Norðurlandi vestra stunda nám. Á þrítugsaldri eru hlutfallslega flestir nemendur í Reykjavík, í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra.

Mun fleiri stúlkur en piltar sækja skóla
Skólasókn 16 ára pilta á landsvísu er 93% en 16 ára stúlkna 95% og hefur hún aukist um eitt prósentustig frá fyrra ári hjá báðum kynjum. Á hverju aldursári frá 16-29 ára er skólasókn kvenna meiri en karla að undanskildum 20 ára aldurshópnum, þar sem 53% bæði kvenna og karla stunda nám.

Mest fjölgun nemenda á háskólastigi er í viðskiptafræði og hagfræði
Flestir nemendur á háskólastigi stunda nám í viðskipta- og hagfræði (18,0% nemenda) og í kennaranámi og uppeldisfræðum (18,0%). Nokkru færri stunda nám í samfélagsvísindum og lögfræði (17,0%). Haustið 2004 voru 20,0% nemenda í kennaranámi og uppeldisfræðum en þessum nemendum fækkaði um 227 frá árinu 2004. Á sama tíma fjölgaði nemendum í viðskipta- og hagfræði um 414 og í samfélagsvísindum og lögfræði um 312. Þegar litið er til baka til ársins 1997 hefur fjöldi nemenda í viðskipta- og hagfræði meira en þrefaldast, en rúmlega tvöfaldast í samfélagsvísindum og lögfræði.


Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember 2005 og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum árgangi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.