Skólamáladeild Hagstofu Íslands hefur tekið saman tölur um fjölda skráðra nemenda í framhaldsskólum og háskólum haustið 2005 og gefið út í ritröðinni Hagtíðindi.

Alls eru 42.200 skráningar í framhaldsskóla og háskóla
Haustið 2005 eru skráðir nemendur á framhalds- og háskólastigi fleiri en nokkru sinni fyrr eða 42.200. Í framhaldsskóla eru skráðir 25.093 nemendur og 17.107 nemendur í háskóla. Fjöldi skráðra nemenda í námi á háskólastigi hefur tæplega tvöfaldast frá hausti 1998 en nemendum á framhaldsskólastigi hefur fjölgað um 24,6% á sama tímabili. Konur eru umtalsvert fjölmennari en karlar eða 24.158 (57,2%) en karlar eru 18.042 (42,8%). Hægt hefur á fjölgun nemenda í fjarnámi og fjölgaði nemendum um 2,6% á síðasta ári. Nemendum fjölgaði eingöngu í fjarnámi á framhaldsskólastigi en nemendum í fjarnámi á háskólastigi fækkaði um 6,3% frá síðasta ári. Nemendur í fjarnámi eru nú tvöfalt fleiri en nemendur í kvöldskólum. Haustið 2005 stunda tæplega 82% nemenda nám í dagskóla, rúmlega 12% nemenda fjarnám og 6% nemenda eru í kvöldskólum.


Í ofangreindum Hagtíðindum má finna yfirlitstölur um heildarfjölda skráðra nemenda í framhalds- og háskólum frá árinu 1998 til 2005. Einnig sundurliðaðar tölur eftir skólastigi, kennsluformi og tegundum skóla fyrir sama tímabil. Þá er að finna í ritinu ítarlegar upplýsingar um fjölda skráðra nemenda haustið 2005 eftir einstaka skólum, námsbraut, kyni og kennsluformi. Loks má finna upplýsingar um fjölda nemenda eftir námsstöðu þeirra. 

Fjöldi nemenda á öllum skólastigum fer yfir 100 þúsund á árinu
Á skólaárinu 2005-2006 fer heildarfjöldi nemenda á Íslandi á öllum skólastigum í fyrsta skipti yfir 100 þúsund. Haustið 2004 voru alls 99.963 nemendur í námi á Íslandi frá leikskólastigi til háskólastigs. Að auki stunduðu  2.175 nemendur nám erlendis. Þar sem skráðum nemendum á framhaldsskólastigi og háskólastigi fjölgar um á annað þúsund frá hausti 2004 bendir allt til þess að heildarfjöldi nemenda á Íslandi fari yfir 100 þúsund á árinu þrátt fyrir að grunnskólanemendum muni líklega fækka lítillega.

Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2005 - Hagtíðindi

Talnaefni
   Framhaldsskólar
   Háskólar