FRÉTT MENNTUN 22. JANÚAR 2010

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um skráða nemendur í framhaldsskólum og háskólum haustið 2009 og gefið út hefti í ritröðinni Hagtíðindi.

Alls eru 48.706 nemendur skráðir í framhaldsskóla og háskóla
Haustið 2009 eru skráðir nemendur á framhalds- og háskólastigi fleiri en nokkru sinni fyrr eða 48.706. Í framhaldsskóla eru skráðir 29.698 nemendur og 19.008 í háskóla. Skráðum nemendum hefur fjölgað um 3,0% frá fyrra ári sem er lítið eitt meiri fjölgun en árið áður. Fjölgunin er öllu meiri á háskólastigi, eða um 5,5%, á móti 1,5% á framhaldsskólastigi. Fjölgun nemenda skýrist fyrst og fremst af vexti fjarnáms á háskólastigi en nemendum í fjarnámi á framhaldsskólastigi fækkaði frá fyrra ári í fyrsta skipti.

Grunnskólanemendum í framhaldsskólum fækkar um fjórðung
Nemendur grunnskóla, sem jafnframt sækja nám í framhaldsskólum, eru 1.090, sem er 4,0% skráðra nemenda í framhaldsskólum. Grunnskólanemendum í framhaldsskólum hefur fækkað um fjórðung á milli ára. Rúmlega eitt hundrað nemendur á grunnskólaaldri eru á undan jafnöldrum sínum í námi og því skráðir sem fullgildir nemendur í framhaldsskólum. Það jafngildir 2,3% árgangs 15 ára árið 2009.

Konur eru í meirihluta meðal skráðra nemenda
Konur eru 56,5% allra skráðra nemenda í framhaldsskólum og háskólum; 52,9% skráðra nemenda í framhaldsskólum og 62,2% skráðra nemenda í háskólum.

Flestir nemendur eru skráðir í bóklegt nám. Á framhaldsskólastigi eru 67,2% nemenda skráðir í almennt nám og á háskólastigi eru 98,1% nemenda skráðir í fræðilegt nám.

Fjölgun nemenda í lögfræði en fækkun í viðskiptafræði frá fyrra ári
Í háskólum eru flestir nemendur skráðir á svið viðskiptafræða, 2.896 talsins. Næst fjölmennasta námssviðið í háskólum er lögfræði en þar eru skráðir til náms 1.290 nemendur. Í viðskiptagreinum fækkaði nemendum frá síðasta ári um 364 eða um 12,6%. Skráðum nemendum í lögfræði fjölgaði hins vegar um 114, eða um 8,9%. Viðskiptagreinar og lögfræði eru einu námsbrautirnar á háskólastigi þar sem fjöldi nemenda nær einu þúsundi.

Rúmlega 300 doktorsnemar stunda nám á 44 fræðasviðum
Doktorsnemum hefur fjölgað um 31 (11,0%) frá fyrra ári og eru nú 314 í námi á 44 fræðasviðum. Þar af eru 134 karlar og 180 konur. Flestir doktorsnemar leggja stund á nám í uppeldis- og menntunarfræðum eða 47; næst fjölmennasta námsleiðin er læknisfræði með 35 nemendur og þriðja fjölmennasta námsleið í doktorsnámi er líffræði með 25 doktorsnema.

Nánari upplýsingar
Í ofangreindum Hagtíðindum má finna yfirlitstölur um heildarfjölda skráðra nemenda í framhalds- og háskólum frá árinu 2003 til 2009. Einnig sundurliðaðar tölur eftir skólastigi, kennsluformi og tegundum skóla fyrir sama tímabil. Loks má finna ítarlegar upplýsingar um fjölda skráðra nemenda haustið 2009 eftir skólum, námsbraut, kyni og kennsluformi. Hagtíðindi má nálgast á vef Hagstofu Íslands.

Skráðir nemendur í framhaldsskólum og háskólum haustið 2009 - Hagtíðindi

Talnaefni:
  Framhaldsskólar
  Háskólar
  Yfirlit

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.