Haustið 2011 voru skráðir nemendur á framhalds- og háskólastigi 48.723. Á framhalds- og viðbótarstigi voru skráðir 29.389 nemendur og 19.334 nemendur á háskóla- og doktorsstigi. Skráðum nemendum fjölgar um 3,1% frá fyrra ári og með þeirri fjölgun er sú fækkun sem varð á síðasta ári að mestu gengin til baka. Skráðum nemendum á framhalds- og viðbótarstigi fjölgar um tæp 5% og nemendum á háskóla- og doktorsstigi um tæpt 1%.

Flestir nemendur velja almennt nám á framhaldsskólastigi og fræðilegt nám á háskólastigi
Í almennt nám á framhaldsskólastigi eru skráðir 18.992 nemendur en í starfsnám eru skráðir 9.369 nemendur. Því eru 67,0% nemenda á fram-haldsskólastigi skráðir í almennt nám en 33,0% nemenda í einhvers konar starfsnám. Á viðbótarstigi eru hins vegar allir nemendurnir 1.028 skráðir í starfsnám (sjá Hagtíðindi: töflu 5).

Framhaldsskólanemendur flestir á félagsfræðabraut
Fjölmennasta einstaka námsbrautin er félagsfræðabraut til stúdentsprófs og hefur hún tekið við af náttúrufræðibraut sem vinsælasta námsbrautin. Á þessa námsbraut eru skráðir 5.494 nemendur. Næst fjölmennasta námsbrautin er náttúrufræðibraut til stúdentsprófs með 5.377 nemendur. Þriðja fjölmennasta brautin er almenn námsbraut en þar eru skráðir til náms 4.804 nemendur. Þessar þrjár námsbrautir eru langfjölmennustu námsbrautirnar í íslenskum skólum ofan grunnskóla. Á þrjár brautir til viðbótar eru skráðir rúmlega eitt þúsund nemendur en það er listnámsbraut (1.112), viðskipta- og hagfræðibraut til stúdentsprófs (1.078) og málabraut til stúdentsprófs (1.072).

Konur eru í meirihluta á öllum skólastigum nema viðbótarstigi
Konur voru umtalsvert fleiri en karlar meðal skráðra nemenda eða 5.709 fleiri. Alls stunduðu 27.216 konur nám í framhaldsskólum og háskólum á móti 21.507 körlum. Konur eru 55,9% nemenda á öllum skólastigum ofan grunnskóla en hlutur karla er 44,1%. Þegar skipting kynja er skoðuð eftir skólastigum eru konur 52,0% nemenda á framhaldsskólastigi, 38,0% nemenda á viðbótarstigi, 62,5% nemenda á háskólastigi og 62,4% nemenda á doktorsstigi.

Á háskóla- og doktorsstigi eru konur fleiri en karlar á öllum sviðum menntunar nema á sviði raunvísinda, stærðfræði og tölvunarfræði sem og í verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð. Hlutfallslega eru konur flestar á sviði heilbrigðis og velferðar en þar eru þær 86,6% nemenda. Á sviði verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerðar eru konur hlutfallslega fæstar eða 31,8% nemenda.

 


Grunnskólanemendum í framhaldsskólum fækkar áfram
Grunnskólanemendum sem taka áfanga í framhaldsskólum fækkar nú þriðja árið í röð. Grunnskólanemendum í framhaldsskólum fækkaði um 25,3% á milli áranna 2008 og 2009 og á milli áranna 2009 og 2010 fækkaði þeim enn frekar eða um 64,2%. Grunnskólanemendur í framhaldsskólum eru nú 323, 135 piltar og 188 stúlkur, sem er rúmlega fimmtungur þess sem var haustið 2008 þegar þeir voru flestir. Ætla má að niðurskurður til kennslu í framhaldsskólum og breytt forgangsröðun sé ástæðan fyrir fækkun grunnskólanemenda í framhaldsskólanámi.

Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2011 - Hagtíðindi

Talnaefni:
     Yfirlit
     Framhaldsskólar
     Háskólar