FRÉTT MENNTUN 26. SEPTEMBER 2023

Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var leiðrétt 23. október 2023 frá upprunalegri útgáfu. Eftir útgáfu fréttarinnar kom í ljós að hluti gagna hafði ekki skilað sér. Tölur í fréttinni hafa verið leiðréttar í samræmi við það.

Alls störfuðu 3.904 starfsmenn í 2.988 stöðugildum í skólum á háskólastigi í nóvember 2022 og hafði fækkað um 23 frá fyrra ári. Kennarar voru 2.515 í 1.598 stöðugildum. Konur voru í meirihluta á meðal starfsfólks (57,7%) og hafa verið fleiri í hópi háskólakennara frá skólaárinu 2018-2019. Frá hausti 2012 til 2022 fjölgaði starfsfólki um rúmlega 800 (26,8%) en á sama tíma fjölgaði nemendum um rúmlega 1.200 eða um 6,5%. Nokkrar sveiflur hafa verið í fjölda starfsmanna á milli ára sem skýrast aðallega af mismunandi fjölda stundakennara.

Stundakennarar voru sex af hverjum tíu háskólakennurum 2022
Rúmlega sex af hverjum tíu háskólakennurum í nóvember 2022 voru aðjúnktar og aðrir stundakennarar, 1.659 talsins (63,6%). Stöðugildi þessa hóps voru 43,0% af stöðugildum kennara.

Prófessorum hefur farið hægt fjölgandi á meðal háskólakennara. Þeir voru 289 haustið 2012 en 427 haustið 2022. Hlutfall þeirra af öllum kennurum hefur þó ekki hækkað jafnmikið. Þeir voru tæp 15% kennara 2012 en rúm 16% 2022.

Doktorar eru tæp 40% háskólakennara
Alls höfðu 39,8% háskólakennara í nóvember 2022 doktorspróf, 1.000 talsins. Þeir voru lítið eitt fleiri en kennarar með meistaragráðu eða ígildi hennar sem voru 38,8% kennara. Hlutfall kennara með doktorspróf fór hæst í 41,7% í nóvember 2020 en hefur lækkað lítillega síðustu tvö árin.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og beint frá einkaskólum. Til starfsfólks á háskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvembermánuði hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem höfðu starfsheiti sem vísaði til kennslu í viðmiðunarmánuðinum. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.