Starfsmenn í grunnskólum á Íslandi í október 2005 voru 7.424 talsins. Starfsmenn við kennslu voru 4.841 og hefur fjölgað um 116 manns frá árinu áður. Þetta eru tölur úr gagnasafni Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um starfsfólk í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Tæplega 87% starfsfólks við kennslu er með kennsluréttindi
Kennurum með kennsluréttindi fjölgar hlutfallslega og hefur hlutfall þeirra ekki verið hærra síðan gagnasöfnun Hagstofunnar hófst haustið 1997. Nú eru 86,7% þeirra sem sinna kennslu með kennsluréttindi og hefur réttindakennurum fjölgað um 152 frá fyrra ári. Hæsta hlutfall réttindakennara á landinu er í  Reykjavík þar sem 94,0% kennara eru með kennsluréttindi. Réttindakennurum hefur fækkað hlutfallslega í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu frá árinu á undan. Þegar litið er á landsbyggðina í heild hefur hlutfall kennara með kennsluréttindi hækkað. Haustið 2005 eru 78,0% kennara á landsbyggðinni með kennsluréttindi og hafa ekki verið fleiri frá árinu 1997.

Kennarastéttin er að eldast
Haustið 2005 eru 1.523 kennarar eða 31,5% starfsmanna við kennslu fimmtugir eða eldri. Árið 1998 voru 959 starfsmenn við kennslu eldri en fimmtugir eða 23,7%. Í þessum aldurshópi eru hlutfallslega fleiri með kennsluréttindi en í hópi yngri kennara. Í fyrrnefndum aldurshópi eru 92,3% með kennsluréttindi haustið 2005 en hlutfall þeirra sem eru yngri en 50 ára með kennsluréttindi er 84,1%.

Fjölgun kvenna í kennarastarfi
Yfir 81% allra starfsmanna í grunnskólum landsins eru konur. Þetta hlutfall er þó misumunandi eftir starfssviðum. Af 180 starfandi skólastjórum eru 92 karlar eða 51,1%. Árið 1999 var samsvarandi hlutfall 65,3%. Konum hefur því fjölgað umtalsvert í hópi skólastjóra á þessu tímabili. Tæplega 80% kennara og deildarstjóra eru konur og hefur það hlutfall farið hækkandi frá árinu 1998 þegar hlutfall kvenna var 76,6%. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfall karla af starfsmönnum við kennslu 19,2%.  Á landsbyggðinni er hlutfallið hærra eða á bilinu 22,0-26,6%, hæst á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra. Ákveðin störf innan grunnskólans eru svo til eingöngu unnin af konum og má þar nefna störf þroskaþjálfa og störf á bókasafni. Karlar eru hlutfallslega flestir í starfi húsvarða eða tæp 88%.

Brottfall úr kennslu minnkar lítillega á milli ára
Alls höfðu 718 starfsmenn við kennslu haustið 2004 hætt störfum haustið 2005 og er brottfallið 15,2%. Þetta er lítið eitt minna brottfall en árið áður þegar brottfallið var 16,1%. Brottfall úr kennslu er hlutfallslega meira meðal þeirra sem ekki hafa kennsluréttindi og meðal þeirra sem eru í hlutastarfi.

Talnaefni