FRÉTT MENNTUN 30. MARS 2023

Rúmlega 80% kennara í framhaldsskólum höfðu kennsluréttindi haustið 2020. Hlutfall kennara með kennsluréttindi hefur lækkað lítillega síðustu ár en það var 86,1% haustið 2011.

Síðustu tuttugu ár hefur hlutfall kvenna við kennslu með kennsluréttindi verið hærra en hlutfall karla í framhaldsskólum. Skólaárið 2020-2021 höfðu 82,9% kvenna við kennslu réttindi á móti 76,6% karla.

Konur voru í fyrsta skipti fleiri en karlar meðal skólameistara framhaldsskóla haustið 2020 þegar þær voru 18 en karlar 16.

Fjórðungur kennara er 60 ára eða eldri
Framhaldsskólakennarar voru fjölmennastir í aldurshópnum 50-59 ára en 27,1% starfsfólks við kennslu í nóvember 2020 tilheyrði þeim aldurshópi. Alls voru 26,7% kennara á aldrinum 40-49 ára og 25,0% voru 60 ára og eldri. Þá voru 18,2% á aldrinum 30-39 ára en 3,0% voru 29 ára og yngri. Konur voru talsvert fleiri en karlar í aldurshópnum 30-59 ára en karlar voru fleiri í flokki 60 ára og eldri.

Um 2.500 manns störfuðu í framhaldsskólum í nóvember 2020
Haustið 2020 voru rúmlega 2.500 starfandi í framhaldsskólum landsins í tæplega 2.400 stöðugildum. Þar af voru 1.770 við kennslu í 1.723 stöðugildum. Konur voru rúm 61% starfsfólks en karlar tæplega 39%.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í framhaldsskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá einkaskólum. Til starfsfólks á framhaldsskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvembermánuði ár hvert. Til starfsfólks við kennslu teljast allir sem höfðu starfsheiti sem vísaði til kennslu eða stjórnunar á kennslusviði í viðmiðunarmánuðinum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.