Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um starfsfólk í skólum á framhaldsskólastigi í mars 2004 og gefið út í ritröðinni Hagtíðindi.
Rúmlega 2.300 starfsmenn í tæplega 2.300 stöðugildum
Í mars 2004 störfuðu 2.304 starfsmenn í 2.288 stöðugildum í 36 framhaldsskólum á Íslandi. Konum hefur fjölgað ár frá ári meðal starfsfólks í framhaldsskólum og eru þær 55% starfsmanna og í rúmlega 50% stöðugilda í mars 2004. Karlar vinna frekar yfirvinnu en konur eru fleiri í hlutastörfum. Karlar eru fleiri í stjórnunarstörfum en konur eru fleiri í störfum er tengjast stoðkerfi skólans og þjónustu hvers konar.
Kennarastéttin er að eldast og er stærsti aldurshópurinn 50-59 ára
Um 70% starfsmanna framhaldsskóla sinna kennslu og hafa 76,5% starfsfólks við kennslu kennsluréttindi. Hlutfallslega hafa fleiri konur en karlar kennsluréttindi og réttindakennarar eru hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Kennarastéttin er að eldast og eru flestir kennarar á aldrinum 50-59 ára. Árið 2000 voru flestir kennarar á aldrinum 40-49 ára. Þegar menntun framhaldsskólakennara er skoðuð hafa langflestir þeirra menntun sem samsvarar Bachelor-gráðu háskólastigs, eða 78%.
Brottfall kennara hefur minnkað árlega
Brottfall kennara hefur farið minnkandi ár frá ári frá skólaárinu 1999/2000. Rúmlega 17% starfsfólks við kennslu í mars 2003 var ekki við kennslu í mars 2004. Um þriðjungur kennara án kennsluréttinda í mars 2003 var ekki við kennslu ári seinna en rúmlega 11% kennara með kennsluréttindi.
Um gögnin
Gögn um starfsfólk í framhaldsskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Til starfsfólks á framhaldsskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í mars 2004 hjá framhaldsskólum og sérskólum á framhaldsskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu í mars 2004. Kennarar sem ekki voru við kennslu í mars, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki meðtaldir í þessum tölum, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.
Starfsfólk í framhaldsskólum í mars 2004 - útgáfur