FRÉTT MENNTUN 01. SEPTEMBER 2006


Konur eru meirihluti framhaldsskólakennara í fyrsta skipti
Í nóvember 2005 störfuðu 2.414 starfsmenn í 2.435 stöðugildum í 36 framhaldsskólum á Íslandi. Í febrúarmánuði árið 2000 voru starfsmenn framhaldsskóla 2.109 í 2.267 stöðugildum í 35 skólum. Konum hefur fjölgað ár frá ári meðal starfsfólks í framhaldsskólum og eru þær 57% starfsmanna í rúmlega 52% allra stöðugilda í nóvember 2005. Í febrúar árið 2000 voru konur 52% allra starfsmanna í framhaldsskólum í rétt rúmlega 46% allra stöðugilda. Sé miðað við öll stöðugildi í framhaldsskólum nemur þessi fjölgun kvenna um 6 prósentustigum. Þegar hlutur kvenna meðal kennara eingöngu er skoðaður er breytingin enn meiri konum í vil. Í febrúar árið 2000 voru konur 44% allra starfsmanna við kennslu en í nóvember 2005 eru þær 52% starfsmanna við kennslu. Konum í kennslustörfum hefur því fjölgað sem nemur um 8 prósentustigum á þessu tímabili.

 

Kennarastéttin er að eldast - fjölmennastir eru 50-59 ára
Kennarastéttin er að eldast og eru kennarar fjölmennastir í hópnum 50-59 ára eða rúmlega 32% allra starfsmanna við kennslu í nóvember 2005. Í febrúar árið 2000 voru kennarar á aldrinum 40-49 ára fjölmennastir eða rúmlega 33% starfandi kennara. Á þessu tímabili, þ.e. frá febrúar 2000 til nóvember 2005 hefur kennurum fimmtugum og eldri fjölgað frá því að vera 39% starfandi kennara í 45% starfandi kennara en það er 6 prósentustiga fjölgun.

Starfsfólk við kennslu í leikskólum og grunnskólum
Á árunum 2000-2005 hefur kennurum einnig fjölgað í leikskólum og grunnskólum á Íslandi. Alls stunda um 10.800 manns kennslu í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og eru í um 10.100 stöðugildum. Aldur leikskóla- og grunnskólakennara er einnig að hækka en þeir eru þó að meðaltali yngri en kennarar í framhaldsskólum. Á öllum skólastigum hefur hlutfall kennara með háskólapróf hækkað á þessu tímabili og fleiri kennarar hafa kennsluréttindi haustið 2005 en haustið 2000. Hæst er hlutfall réttindakennara í grunnskólum en þar eru tæp 87% kennara með kennsluréttindi. Sameiginlegt öllum skólastigum er að fleiri kennarar eru í fullu starfi haustið 2005 en haustið 2000. Brottfall úr kennarastéttinni fer minnkandi og er það öll árin minna meðal kennara í grunnskólum og framhaldsskólum en meðal kennara í leikskólum. Rúmlega 70% nýútskrifaðra kennara fara að kenna strax að námi loknu. Hæst er hlutfallið hjá leikskólakennurum, rúmlega 81%, en nokkru lægra hjá grunnskólakennurum eða tæp 76%. Rúmlega 86% leikskólakennara sem útskrifuðust fyrir 5 árum eru að störfum haustið 2005, samanborið við tæplega 70% grunnskólakennara og rúm 54% faggreinakennara. Nánari upplýsingar um kennara má sjá í hefti Hagtíðinda, sem kemur út 1. september 2006.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í framhaldsskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Viðmiðunartími gagna er nóvember fyrir þau gögn sem safnað var fyrir skólaárin 2004-2005 og 2005-2006 og eru tölur fyrir síðastliðin tvö ár nú birt í fyrsta skipti. Árin 2001 – 2004 var gögnum safnað í marsmánuði en fyrir árið 2000 í febrúarmánuði. Til starfsfólks á framhaldsskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2004 og 2005. Starfsfólk við kennslu teljast allir þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu á viðmiðunartímanum, s.s. vegna barneigna- eða námsleyfis, eru ekki taldir sem starfsmenn við kennslu. Þeir teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Starfsfólk við kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum 2000-2005 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.