FRÉTT MENNTUN 29. ÁGÚST 2008


Starfsfólki í framhaldsskólum fjölgar um 57 á milli ára

Haustið 2007 var 2.551 starfsmaður í framhaldsskólum landsins í 2.557 stöðugildum. Þar af sinntu 1.899 starfsmenn kennslu í 1.985 stöðugildum.
Breytingar á fjölda starfsmanna í framhaldsskólum milli ára eru óverulegar. Í framhaldsskólum landsins teljast nú 57 fleiri starfmenn en fyrir ári síðan. Þar af hefur starfsmönnum við kennslu fjölgað um 30 á milli ára.

Konur eru meirihluti starfsmanna framhaldsskólanna
Konur eru fleiri en karlar meðal starfsmanna í framhaldsskólum, hvort heldur eru taldir allir starfsmenn eða einungis starfsmenn við kennslu. Skólaárið 2007-2008 voru konur 57,7% allra starfsmanna í framhaldsskólum og 52,0% starfsmanna við kennslu. Þegar talin eru stöðugildi starfsmanna við kennslu kemur hins vegar í ljós að stöðugildi karla við kennslu eru 1.028 (51,8%) á móti 957 (48,2%) stöðugildum kvenna. Karlar vinna því fremur yfirvinnu en konur eru frekar í hlutastörfum.

Nærri 80% kennara í framhaldsskólum hafa kennsluréttindi
Alls höfðu 78,0% starfsmanna við kennslu í nóvember 2007 kennsluréttindi en 22,0% voru án réttinda. Með réttindakennara er átt við þann starfsmann við kennslu sem hefur leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu til að kalla sig framhaldsskólakennara. Réttindakennurum í framhaldsskólum hefur fjölgað á undanförnum árum. Skólaárið 2000-2001 var hlutfall réttindakennara í framhaldsskólum 71,3%. Réttindakennurum á framhaldsskólastigi hefur því fjölgað um 6,7 prósentustig á þessum tíma.

Framhaldsskólar utan höfuðborgarsvæðisins hafa löngum haft hlutfallslega færri réttindakennara innan sinna vébanda en skólar á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2006 snerist þetta við en þá voru hlutfallslega fleiri réttindakennarar starfandi í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2007 höfðu 78,4% kennara á höfuðborgarsvæðinu réttindi og 77,1% kennara á landsbyggðinni og því eru réttindakennarar á ný lítið eitt fleiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. 


 

Forvitnilegt er að skoða fjölda og hlutfall réttindakennara eftir stöðugildum. Af 1.348 starfsmönnum við kennslu sem eru í heilli stöðu eða meira hafa 1.198 kennsluréttindi en 150 eru leiðbeinendur. Í hópi kennara í fullu starfi eða meira hafa því 88,9% kennsluréttindi, 11,1% er án réttinda en tæplega helmingur kennara í hlutastarfi er réttindalaus.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í framhaldsskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Viðmiðunartími gagna er nóvember fyrir þau gögn sem safnað hefur verið fyrir undanfarin fjögur skólaár. Árin 2001–2004 var gögnum safnað í marsmánuði en fyrir árið 2000 í febrúarmánuði. Til starfsfólks á framhaldsskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2007. Starfsfólk við kennslu eru allir þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu á viðmiðunartímanum, s.s. vegna barneigna- eða námsleyfis, eru ekki taldir sem starfsmenn við kennslu. Þeir teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.