Skólaárið 2024-2025 voru 81,8% starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins með kennsluréttindi en voru 81,3% árið áður. Kennurum með kennsluréttindi í grunnskólum landsins fjölgaði um 57 frá hausti 2023.
Alls störfuðu 5.947 við kennslu haustið 2024 og hafa ekki verið fleiri. Kennarar með kennsluréttindi voru 4.862 og hafa ekki áður verið fleiri en starfsmenn við kennslu án réttinda voru 1.085, lítið eitt færri en árið áður. Alls voru 82,9% starfsmanna við kennslu sem eru án kennsluréttinda með háskólamenntun og hefur það hlutfall ekki verið hærra.
Hlutfall starfsfólks við kennslu með kennsluréttindi var hæst á Norðurlandi eystra, þar sem það var 87,6%, og 85,0% á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. Lægst var hlutfall starfsfólks við kennslu með kennsluréttindi á Suðurnesjum, 65,6% og á Austurlandi, 67,4%.
Aldrei fleiri karlar við kennslu
Karlar við kennslu voru 1.134 haustið 2024 og hafa ekki verið fleiri síðan Hagstofa Íslands hóf gagnasöfnun sína árið 1998. Hlufall þeirra af starfsfólki við kennslu hefur þó farið lækkandi á þessum tíma. Þeir voru 26,0% starfsfólks við kennslu árið 1998 en hlutfallið var undir 18% árin 2016–2021. Frá árinu 2022 hefur hlutfall karla af starfsfólki við kennslu hækkað aftur og var komið upp í 19,1% haustið 2024.
Meðalaldur starfsfólks við kennslu lækkar lítillega
Meðalaldur starfsfólks við kennslu lækkaði lítillega frá fyrra ári, úr 46,1 ári í 45,9 ár. Ástæðan er hvort tveggja lækkandi meðalaldur starfsfólks með kennsluréttindi úr 48,5 í 48,3 ár, og starfsfólks án kennsluréttinda úr 35,7 í 35,3 ár.
Aldrei fleiri starfsmenn
Haustið 2024 störfuðu 9.709 starfsmenn í 8.538 stöðugildum í grunnskólum á Íslandi og hafði fjölgað um 2,5% frá fyrra ári. Ekki hafa áður starfað fleiri starfsmenn í grunnskólum á Íslandi samkvæmt tölum Hagstofunnar. Grunnskólanemendur voru 47.162 skólaárið 2024-2025.