Starfsmenn skóla á háskólastigi tæplega 2.800
Starfsmenn skóla á háskólastigi í nóvember 2005 voru 2.756 í 2.135 stöðugildum. Ári áður, þ.e. í nóvember 2004 voru 2.592 starfsmenn í 2.007 stöðugildum í skólum á háskólastigi. Á milli ára hefur því fjölgað um 164 starfsmenn en þó einungis um 128 stöðugildi. Í þessum tölum eru allir starfsmenn taldir, jafnt þeir sem sinna kennslu sem öðrum störfum. Starfsmenn sem einungis sinna kennslu eru eins og að líkum lætur aðeins færri. Í nóvember 2005 voru þeir 1.832 í 1.247 stöðugildum en ári fyrr þ.e. í nóvember 2004 voru þeir 1.731 í 1.158 stöðugildum. Á milli ára hefur því háskólakennurum fjölgað um 101 en stöðugildum um 89.

Meirihluti starfsmanna við kennslu á háskólastigi er í hlutastarfi

Drjúgur meirihluti háskólakennara er í hlutastarfi. Í nóvember 2005 voru 60% háskólakennara með starfshlutfall minna en sem nemur einu stöðugildi og flestir þeirra (771) eru í minna en hálfu starfi en það eru 42% háskólakennara. Ári áður, í nóvember 2004, voru 61% háskólakennara í hlutastarfi.

Tvær af hverjum þremur konum við kennslu eru í hlutastarfi (66%).


 

Um helmingur (51%) starfsfólks við kennslu eru aðjúnktar og stundakennarar. Stöðugildi þessa hóps eru 448 af 1.246 stöðugildum við kennslu eða 36%. Prófessorar eru hins vegar um 11% starfsmanna við kennslu í tæplega 17% stöðugilda. Dósentar eru 11% háskólakennara í 15,2% stöðugilda en lektorar eru 13,5% háskólakennara í 20,3% stöðugilda. 

Karlar fleiri en konur meðal háskólakennara
Í nóvember 2005 eru karlar 54% háskólakennara í 732 stöðugildum en konur 46% starfsmanna í 516 stöðugildum. Háskólastigið er eina skólastigið þar sem karlar eru í meirihluta en á neðri skólastigunum eru konur nú fleiri en karlar meðal kennara.

Kynjamunur innan starfsheita er svipaður nú í nóvember 2005 og hann hefur verið undanfarin ár. Karlmenn eru umtalsvert fleiri í stöðum rektora, prófessora og dósenta. Meðal lektora eru konur þó fleiri en karlar. Konur í hópi rektora eru tvær eins og undanfarin ár en karlar átta talsins. Af 212 prófessorum eru 37 konur eða 17% og hefur því fjölgað um 2 prósentustig frá mars 2004. Karlar eru einnig fjölmennari í stöðum aðjúnkta og stundakennara. Konur eru hins vegar fleiri meðal lektora og í sérfræðistörfum hvers konar. Þá eru konur einnig mun fjölmennari í stöðum sem tengjast skrifstofustörfum, ráðgjöf, bókasafni og rekstri húsnæðis. Þar er hlutur kvenna 69% á móti 31% hlut karla.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Nú eru fyrsta sinni birtar tölur um starfsfólk á háskólastigi sem var í launaðri vinnu í nóvember 2004 og nóvember 2005 hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu í nóvember annað hvort árið, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki taldir meðal kennara, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni