FRÉTT MENNTUN 10. SEPTEMBER 2008


Starfsmenn skóla á háskólastigi tæplega 3.000
Starfsmenn skóla á háskólastigi í nóvember 2007 voru 2.948 í 2.298 stöðugildum. Ári áður, þ.e. í nóvember 2006 voru starfsmennirnir 2.990 í 2.198 stöðugildum. Á milli ára hefur starfsmönnum fækkað um 42 (1,4%) en stöðugildum hins vegar fjölgað um eitt hundrað (4,5%). Því má segja að færri hendur vinni fleiri verk. Í þessum tölum eru allir starfsmenn taldir, jafnt þeir sem sinna kennslu sem öðrum störfum. Starfsmenn sem sinna kennslu voru 2.078 í 1.384 stöðugildum í nóvember 2007 en ári fyrr voru þeir 2.052 í 1.338 stöðugildum. Á milli ára hefur háskólakennurum því fjölgað um 26 (1,3%) en stöðugildum um 45 (3,4%).

Flestir háskólakennarar á aldrinum 40-49 ára
Starfsmenn háskóla við kennslu eru flestir á aldrinum 40-49 ára eða 629 manns. Það eru 30,3% háskólakennara. Næst flestir eru háskólakennarar á aldrinum 50-59 ára eða 582 en það eru 28,0% háskólakennara. Í þremur yngstu aldursflokkum háskólakennara, þ.e. þeim sem eru 49 ára og yngri, fækkar einstaklingum á milli ára um 49. Í tveimur elstu aldursflokkunum, þ.e. 50 ára og eldri, fjölgar um 75 einstaklinga. Háskólakennurum 50 ára og eldri hefur því fjölgað um sem nemur rúmum þremur prósentustigum á sama tíma og yngri kennurum fækkar um jafnmörg prósentustig.


 

Stundakennarar fjölmennir í háskólum
Rúmlega helmingur (55,5%) starfsfólks við kennslu eru aðjúnktar og lausráðnir stundakennarar. Stöðugildi þessa hóps eru 562 af 1.384 stöðugildum starfsmanna við kennslu eða 40,6%. Prófessorar, dósentar og lektorar eru á bilinu 11-13% háskólakennara hver starfsstétt fyrir sig. Stöðugildi prófessora við kennslu eru 18,4%, dósenta 14,6% og lektora 18,5% stöðugilda háskólakennara. Samtals eru stöðugildi allra þessara starfshópa við kennslu um 92% en um 8% stöðugilda við kennslu eru mönnuð af ýmsum sérfræðingum, sérhæfðu starfsfólki og stjórnendum.

Rúmlega 23% háskólakennara hafa doktorspróf
Þegar menntun háskólastarfsmanna við kennslu er skoðuð sést að 23,5% þeirra hafa doktorspróf. Starfsmenn með doktorspróf eru jafnframt í 32,7% stöðugilda við kennslu og eru því fjölmennasti hópur starfsmanna við kennslu sé miðað við stöðugildi. Háskólakennarar sem einungis hafa grunnpróf af háskólastigi eru fjölmennasti hópurinn þegar einstaklingar eru taldir (37,0%) en stöðugildi þeirra eru 28,9% af stöðugildum starfsmanna við kennslu. Háskólakennarar með meistaragráðu eða sambærilega menntun eru 28,9% starfsmanna við kennslu í 31,8% stöðugilda. Aðrir starfsmenn sem eitthvað koma að kennslu í háskólum hafa annað tveggja aðeins menntun úr framhaldsskóla (4,2%) eða ekki er vitað um menntun þeirra (6,4%). Þeir eru 10,6% starfsmanna við kennslu en heildarstöðugildi þessa hóps eru þó einungis 6,7% stöðugilda.


 

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Til starfsfólks á háskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2007 hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu í nóvember, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki taldir meðal kennara, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.