Starfsmenn skóla á háskólastigi rúmlega 3.000
Starfsmenn skóla á háskólastigi í nóvember 2008 voru 3.048 í 2.339 stöðugildum. Í þessum tölum eru allir starfsmenn taldir, jafnt þeir sem sinna kennslu sem öðrum störfum. Ekki hafa áður starfað svo margir í háskólum á Íslandi. Starfsmönnum hefur fjölgað um 100 frá síðasta skólaári (3,4%) en um 58 frá skólaárinu 2006-2007 (1,9%). Stöðugildum starfsmanna hefur þó fækkað um 41 (1,8%) frá síðasta skólaári. Starfsmenn sem sinna kennslu voru 2.039 í 1.334 stöðugildum í nóvember 2008.
Háskólakennurum yfir fimmtugt fjölgar
Starfsmenn háskóla við kennslu eru flestir á aldrinum 40-49 ára eða 608 manns í 383 stöðugildum. Næst flestir eru háskólakennarar á aldrinum 50-59 ára eða 584. Í nóvember 2004 voru 10,2% starfsmanna við kennslu 29 ára og yngri. Fjórum árum síðar eru þeir 8,0% og hefur því fækkað sem nemur 2,2 prósentustigum. Háskólakennarar á aldrinum 40-49 ára voru 31,2% kennarahópsins haustið 2004 en eru nú 29,8%. Þeim hefur fækkað um 1,4 prósentustig á tímabilinu. Í hópi kennara á aldrinum 50-59 ára hefur kennurum hins vegar fjölgað um 2,4 prósentustig á tímabilinu og í aldursflokki 60 ára og eldri hefur fjölgað sem nemur 2,1 prósentustigi.
Stundakennarar eru rúmlega helmingur háskólakennara
Rúmlega helmingur (56,9%) starfsfólks við kennslu eru aðjúnktar og lausráðnir stundakennarar. Stöðugildi þessa hóps eru 525 af 1.334 stöðugildum starfsmanna við kennslu eða 39,4%. Prófessorar, dósentar og lektorar eru á bilinu 11-14% háskólakennara hver starfsstétt fyrir sig. Stöðugildi prófessora við kennslu eru 20,0%, dósenta 15,6% og lektora 18,9% stöðugilda háskólakennara. Samtals eru stöðugildi allra þessara starfshópa við kennslu 93,9% stöðugilda við kennslu en 6,1% eru mönnuð af sérfræðingum, sérhæfðu starfsfólki og stjórnendum.
Þegar háskólakennarar eru taldir eftir starfsheiti og kyni má sjá að kynjamunur er mestur meðal prófessora. Karlar eru 76,2% prófessora en konur 23,8% þeirra. Í hópi lektora er hlutfall kynjanna jafnast en karlar eru 50,9% lektora. Meðal lausráðinna stundakennara og aðjúnkta eru konur 55,7% en karlar eru 44,3%.
Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Til starfsfólks á háskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í nóvember 2008 hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu á viðmiðunartímanum. Kennarar sem ekki voru við kennslu í nóvember, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki taldir meðal kennara, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.