FRÉTT MENNTUN 19. MAÍ 2010

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um starfsfólk í leikskólum í desember 2009 og gefið út hefti í ritröðinni Hagtíðindi.

Starfsfólki í leikskólum fjölgar áfram
Í desember 2009 störfuðu 5.596 starfsmenn í 4.813 stöðugildum í 282 leikskólum á Íslandi. Starfsmönnum hefur farið fjölgandi allt frá árinu 1997 þegar Hagstofan hóf að safna gögnum um börn og starfsfólk í leikskólum. Starfsmönnum hefur fjölgað um 51% og stöðugildum um 73%. Á sama tíma hefur börnunum fjölgað um 24% og barngildum hefur fjölgað um 60%, en þá er búið að taka tillit til aldurs og lengdar viðveru barnanna. Á þessu tímabili hefur leikskólum fjölgað um 33 og munar þar mest um fjölgun einkarekinna leikskóla. Leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum hefur einnig fjölgað og hin síðari ár hafa leikskólar og grunnskólar sums staðar verið sameinaðir í eina skólastofnun.

Fleiri leikskólastarfsmenn með háskólapróf
Aldrei áður hafa fleiri starfsmenn verið með háskólapróf. Í desember 2009 var 2.421 starfsmaður með háskólapróf og að auki höfðu 65 starfsmenn lokið diplómanámi. Samsvarandi fjöldi starfsmanna með háskólapróf árið 1998 var 1.016 en þá var ekki farið að bjóða upp á diplómanám.

Ungum starfsmönnum fer fækkandi
Í nýjustu gögnum Hagstofunnar eru færri starfsmenn yngri en 20 ára eða 106 einstaklingar. Þeir hafa ekki mælst færri í gögnum stofnunarinnar og eru í fyrsta skipti innan við 2% starfsmanna. Flestir voru ungu starfsmennirnir árið 2007, en þá voru þeir 265 talsins. Hagstofan hefur einnig birt árlega tölur um brottfall meðal starfsmanna í leikskólum. Brottfallið hefur að meðaltali verið 25,9% á árunum 1999-2008. Á milli áranna 2008 og 2009 var brottfallið 20,8% og hefur ekki mælst lægra milli tveggja ára síðan Hagstofa Íslands hóf að birta tölur um brottfall starfsmanna árið 1999.

Starfsfólk í leikskólum 2009 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.