FRÉTT MENNTUN 09. NÓVEMBER 2021

Samtals störfuðu 1.628 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi í desember 2020, eða 25,7% starfsfólks við uppeldi og menntun barna, og hefur þeim fjölgað um 43 frá síðasta ári. Alls höfðu 1.227 starfsmenn við uppeldi og menntun leikskólabarna lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi og hefur orðið töluverð fjölgun í þeim hópi síðustu ár. Af þessum starfsmönnum voru 114 kennarar sem höfðu menntað sig til kennslu á öðrum skólastigum en leikskólastigi. Ófaglært starfsfólk var rúmlega helmingur (55%) starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2020.

Alls störfuðu 6.777 í leikskólum í desember 2020 og hafði fjölgað um 367 (5,7%) frá fyrra ári þrátt fyrir að leikskólabörnum hafi einungis fjölgað um 134 (0,7%) börn á sama tíma. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði um 5,0% og voru 5.898.

Minni starfsmannavelta
Starfsmannavelta í leikskólum á milli áranna 2019 og 2020 var 20% og hefur ekki verið minni frá því að Hagstofan hóf að birta gögn um starfsfólk í leikskólum árið 1999. Eru þá bornir saman þeir starfsmenn sem störfuðu í leikskólum þann 1. desember 2019 og voru enn við störf á sama tíma árið 2020. Undanfarin ár hefur starfsmannaveltan verið 23-27% á milli ára.

Fleiri eldri leikskólakennarar
Tæplega fimmtungur leikskólakennara (18,5%) var 60 ára og eldri og hafði leikskólakennurum á þessum aldri fjölgað meira en leikskólakennurum í yngri aldurshópunum. Tæpur fimmtungur leikskólakennara var undir fertugu (19,2%) en rúm 62% leikskólakennara voru á aldrinum 40-59 ára.

Sé horft til allra starfsmanna leikskóla voru leikskólakennarar meira en helmingur allra starfsmanna leikskóla sem voru 60 ára og eldri en þeir voru innan við fimmtungur starfsfólks á aldrinum 30-39 ára og enn lægra hlutfall yngra starfsfólks.

Aldrei hafa fleiri karlar starfað á leikskólum
Karlkyns starfsmenn í leikskólum voru 546 í desember 2020, eða 8,1% starfsfólks, og hafa aldrei verið fleiri. Karlkyns starfsmönnum fjölgaði um 18,2% frá desember 2019.

261 leikskóli starfandi
Í desember 2020 var 261 leikskóli starfandi sem er fjölgun um þrjá frá fyrra ári. Sveitarfélögin ráku 217 leikskóla en 44 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.