Alls starfaði 1.581 leikskólakennari í leikskólum á Íslandi í desember 2022. Auk þess störfuðu 210 aðrir kennarar með kennsluréttindi í leikskólum landsins. Samtals voru menntaðir kennarar 26,6% starfsfólks við uppeldi og menntun barna í desember 2022 og lækkaði hlutfallið lítillega frá árinu á undan. Alls höfðu 1.060 starfsmenn við uppeldi og menntun leikskólabarna lokið annarri uppeldismenntun en ófaglært starfsfólk var rúmlega helmingur (57,6%) starfsfólks í desember 2022.

Einn af hverjum átta starfsmönnum við uppeldi og menntun leikskólabarna hefur lokið meistaragráðu
Hagstofan birtir nú ítarlegri upplýsingar en áður um háskólamenntun starfsfólks við uppeldi og menntun í leikskólum þar sem háskólamenntun er greind eftir prófgráðum. Í desember 2022 voru 35,0% starfsfólks við uppeldi og menntun með grunnpróf á háskólastigi og 12,0% með meistaragráðu eða meiri menntun. Rúmur helmingur (53,0%) var með menntun á framhaldsskólastigi eða minni menntun. Samsvarandi tölur úr grunnskólum sýna að 63,2% starfsfólks við kennslu í október 2022 voru með grunnpróf á háskólastigi og 31,4% með meistaragráðu eða meiri menntun.

Hlutfall starfsfólks leikskóla sem hefur a.m.k. lokið meistaragráðu var hærra á meðal leikskólastjóra (42,1%) en á meðal aðstoðarleikskólastjóra (28,7%) og deildarstjóra og kennara (10,2%). Til að fá leyfisbréf sem kennari til starfa í leikskóla þarf núna að hafa lokið meistaragráðu en eldri leyfisbréf gilda áfram.

Alls störfuðu 7.119 í leikskólum í desember 2022 og hafði fjölgað um 225 (3,3%) frá fyrra ári sem er sama hlutfallslega fjölgun og hjá leikskólabörnum á sama tíma. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði um 4,0% og voru 6.274.

Rúmur helmingur leikskólakennara er yfir fimmtugu
Rúmlega helmingur leikskólakennara (51,4%) er 50 ára og eldri og hefur hlutfall þessa aldurshóps á meðal leikskólakennara farið ört vaxandi undanfarin ár. Árið 2004 voru rúm 70% kennara á aldrinum 30-49 ára en hefur fækkað hlutfallslega ár frá ári og voru 46,7% árið 2022. Með lengingu náms leikskólakennara fækkaði kennurum í yngsta aldurshópnum og voru aðeins 2,0% leikskólakennara haustið 2022. Þessar tölur eiga einungis við um kennara sem hafa menntun sem leikskólakennarar, ekki aðra kennara sem starfa í leikskólum.

Aldrei hafa fleiri karlar starfað á leikskólum
Karlkyns starfsmenn í leikskólum voru 611 í desember 2022, 8,6% starfsfólks, og hafa aldrei verið fleiri. Árið 1999 störfuðu 70 karlmenn í leikskólum landsins.

Rúmlega 260 leikskólar starfandi
Í desember 2022 voru 264 leikskólar starfandi sem er fjölgun um fjóra frá fyrra ári. Sveitarfélögin ráku 221 leikskóla en 43 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum.

Talnaefni