FRÉTT MENNTUN 07. SEPTEMBER 2004

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um starfsfólk í skólum á framhaldsskólastigi í mars 2003.

Starfsmenn eru tæplega 2.300 og þar af rúmlega 1.600 við kennslu
Alls störfuðu 2.274 einstaklingar í skólum á framhaldsskólastigi í mars 2003 í 2.266 stöðugildum. Þá er öll yfirvinna meðtalin. Konur eru 54% starfsmanna og karlar 46%. Um 69% einstaklinga eru í fullu starfi eða meira en um 15% starfsfólks er í minna en hálfu starfi. Hlutastörf eru mun algengari meðal kvenna en karla. Af 713 einstaklingum sem eru í minna en heilli stöðu eru konur 69% en karlar 31%.

Karlar eru fleiri en konur í stjórnunarstörfum
Af 36 skólameisturum framhaldsskóla eru 29 karlar (81%) og 7 konur (19%) og er það óbreytt staða frá fyrra ári. Aðstoðarskólameistarar eru 29, þar af 22 karlar (76%) og 7 konur (24%). Aðstoðarskólameisturum hefur fjölgað um tvo frá fyrra ári en þá voru 22 karlar og 5 konur aðstoðarskólameistarar. Karlar eru einnig í meirihluta meðal annarra stjórnenda og sérfræðinga. Þegar störf á skrifstofu, við ræstingu eða þjónustu hvers konar eru skoðuð snúast kynjahlutföllin við en þar er hlutur kvenna á bilinu 73-83%.

Fleiri karlar en konur við kennslu
Starfsmenn við kennslu eru 1.623 í 1.716 stöðugildum. Þótt konur séu fjölmennari en karlar þegar allir starfsmenn eru taldir þá hafa karlar vinninginn þegar einungis er talið starfsfólk sem stundar kennslu. Karlar sem starfa við kennslu eru 857 eða 53% kennara en konur eru 766 eða 47% þessa hóps. Karlarnir eru í 953 stöðugildum á móti 763 stöðugildum kvenna.

Konur eru fjölmennar meðal yngri kennara
Flestir kennarar eru á aldrinum 40-49 ára eða 506 (31%) og nærri því jafnmargir eru á aldrinum 50-59 ára eða 493 (30%). Að auki eru 215 kennarar (13%) sextugir eða eldri. Því er ljóst að 3 af hverjum 4 kennurum (75%) eru 40 ára og eldri en kennarar yngri en 40 ára eru einungis 25% hópsins. Yngstu kennararnir, 29 ára og yngri, eru 90 (6%), 9 fleiri en í mars 2002. Í aldurshópunum yfir fimmtugu eru karlar 63% kennara en konur eru 60% kennara í aldurshópunum undir fertugu.

Um 15% kennara hafa lokið meistaragráðu
Alls hafa 76% starfsfólks við kennslu lokið fyrsta prófi á háskólastigi. Að auki hafa 15% kennara lokið meistaranámi (mastersgráðu). Alls hafa 33 þeirra sem fást við kennslu á framhaldsskólastigi lokið doktorsprófi en það er um 2% kennara. Um 6% starfsfólks við kennslu hafa ekki lokið námi á háskólastigi. Ekki er að merkja verulegan kynjamun á menntun starfsfólks við kennslu. Þó eru konur nokkuð fleiri meðal starfsfólks við kennslu sem ekki hefur lokið háskólanámi, 59 á móti 38 körlum. Af 33 starfsmönnum við kennslu með doktorspróf eru 26 karlar en 7 konur.

Um 74% starfsfólks við kennslu hafa kennsluréttindi
Alls höfðu 74% þeirra sem störfuðu við kennslu í mars 2003 kennsluréttindi, 71% karla og 77% kvenna. Á höfuðborgarsvæðinu eru 78% kennara með kennsluréttindi en 68% kennara landsbyggðarskóla. Alls hafa 82% kennara við menntaskóla kennsluréttindi, 73% kennara við iðn- og fjölbrautaskóla en einungis 49% kennara við sérskóla á framhaldsskólastigi.

Um 80% leiðbeinenda hafa lokið námi á háskólastigi
Helmingur (50%) leiðbeinenda er í fullu starfi eða meira en 85% réttindakennara eru í fullu starfi eða meira. Þrátt fyrir að vera réttindalausir hafa margir leiðbeinendur lokið háskólanámi. Alls hafa 80% leiðbeinenda lokið námi á háskólastigi. Þar af hafa 42 lokið meistaragráðu og sjö lokið doktorsprófi.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í framhaldsskólunum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Til starfsfólks á framhaldsskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í mars 2003 hjá framhaldsskólum og sérskólum á framhaldsskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu í mars 2003. Kennarar sem ekki voru við kennslu í mars, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki meðtaldir í þessum tölum, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.