FRÉTT MENNTUN 25. ÁGÚST 2005

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um starfsfólk í skólum á háskólastigi í mars 2004.

Starfsmenn eru tæplega 2.400 í rúmlega 1.800 stöðugildum
Starfsmenn skóla á háskólastigi í mars 2004 voru 2.378 í 1.835 stöðugildum. Þá er öll yfirvinna meðtalin. Starfsmönnum hefur fækkað um 137 frá árinu áður en stöðugildum fjölgað um 26. Fækkunin er meiri meðal kvenna en karla og er aðallega meðal starfsmanna sem unnu hlutastörf í Háskóla Íslands og í Kennaraháskóla Íslands, s.s. við stundakennslu og umsjón með kennaranemum.

Kynjamunur eftir störfum svipaður og árið 2003
Karlar eru 49% starfsmanna í 956 stöðugildum en konur 51% starfsmanna í 880 stöðugildum. Kynjamunur innan starfsheita er svipaður árið 2004 og hann var árið 2003. Karlmenn eru umtalsvert fleiri í stöðum rektora, prófessora og dósenta. Konur í hópi rektora eru tvær eins og árið 2003 en karlar áfram 9 talsins. Af 199 prófessorum eru 30 konur eða 15%, sem er fækkun um 1 prósentustig frá fyrra ári. Karlar eru einnig fjölmennari í stöðum aðjúnkta og stundakennara. Konur eru hins vegar fleiri meðal lektora og í sérfræðistörfum hvers konar. Þá eru konur einnig mun fjölmennari í stöðum sem tengjast skrifstofustörfum, ráðgjöf, bókasafni og rekstri húsnæðis. Þar er hlutur kvenna 70% á móti 30% hlut karla.

Um helmingur starfsfólks í skólum á háskólastigi er í fullu starfi
Tæplega helmingur (49%) starfsfólks er í fullu starfi eða meira, en 31% starfsmanna eru í minna en hálfu starfi. Hlutastörf eru algengari meðal kvenna en karla.

Starfsmenn við kennslu í íslenskum háskólum voru 1.617 í 1.132 stöðugildum í mars 2004. Þessi mikli munur á fjölda einstaklinga og stöðugilda skýrist af því hve margir starfsmenn við kennslu eru í hlutastörfum. Einungis 42% starfsmanna við kennslu eru í fullu starfi eða meira. Drjúgur hluti starfsfólks við kennslu (41%) er í minna en hálfu starfi. Tvær af hverjum þremur konum við kennslu eru í hlutastarfi (64%). Ríflega helmingur (55%) starfsfólks við kennslu eru aðjúnktar og stundakennarar. Stöðugildi þessa hóps eru 417 af 1.128 stöðugildum við kennslu eða 37% og hafa hækkað um 1 prósentustig frá fyrra ári.

Fleiri karlar meðal háskólakennara hafa lokið doktorsprófi en konur
Tæplega þriðjungur (31%) karla meðal kennara í skólum á háskólastigi hefur lokið doktorsprófi en um 12% kvenna. Hins vegar hafa fleiri konur meðal háskólakennara eingöngu lokið meistaraprófi og grunnprófi á háskólastigi en karlar. Nánari skoðun á gögnunum sýnir að enginn munur er á menntun prófessora eftir kynjum. Tæplega 84% karlprófessora og tæplega 83% kvenprófessora hafa lokið doktorsprófi. Alls sinntu 67 starfsmenn kennslu í skólum á háskólastigi sem eingöngu höfðu lokið námi á framhaldsskólastigi. Það skal tekið fram að upplýsingar vantar um menntun 205 starfsmanna við kennslu en það eru 13% kennara.

Um gögnin
Gögn um starfsfólk í háskólum eru fengin frá Fjársýslu ríkisins og frá skólunum. Til starfsfólks á háskólastigi telst allt starfsfólk sem var í launaðri vinnu í mars 2004 hjá háskólum og sérskólum á háskólastigi. Til starfsfólks við kennslu teljast þeir sem stunduðu einhverja kennslu í mars 2004. Kennarar sem ekki voru við kennslu í mars, s.s. vegna barneigna eða námsleyfis, eru ekki meðtaldir í þessum tölum, en teljast þó með í heildarfjölda starfsfólks ef þeir fengu laun á tímabilinu. Menntun starfsfólks byggist á hæstu gráðu eða prófi sem starfsmaður hefur lokið.

Talnaefni


 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.