FRÉTT MENNTUN 26. APRÍL 2012

Í desember 2011 störfuðu 5.515 manns í 4.798 stöðugildum við leikskóla á Íslandi. Það er fjölgun um 27 starfsmenn frá fyrra ári (0,5%) og stöðugildum fjölgaði einnig um 27 (0,6%). Leikskólabörnum hefur fjölgað um 198 á sama tíma, eða um 1,0%. Frá desember 2009 hefur leikskólabörnum fjölgað um 443 en starfsmönnum fækkað um 124.

Körlum fjölgar en konum fækkar við uppeldi og menntun leikskólabarna
Athygli vekur að frá desember 2009 til sama tíma 2011 fjölgar körlum í starfi á leikskólum um 64, en konum fækkar um 188. Einkum fjölgar körlum sem starfa við uppeldi og menntun barnanna. Þeir voru 197 árið 2009 en 253 árið 2011, og hafði því fjölgað um 28,4% á tveimur árum. Á þessu tveggja ára tímabili fækkaði konum í sömu störfum um 154; 3,1%.

Aukin starfsmannavelta frá 2010
Brottfall starfsmanna á milli áranna 2010 og 2011 var 25,2% og hefur aukist um 0,8 prósentustig frá fyrra ári. Hlutfallslega er mest brottfall meðal starfsmanna við ræstingar, 34,7%, en minnst meðal aðstoðarleikskólastjóra (7,3%) og leikskólastjóra (13,9%).

Sé litið á menntun starfsmanna fjölgar leikskólakennurum um 115 (6,7%) og starfsfólki með aðra uppeldismenntun fjölgar um 245 (38,2%) frá desember 2010. Munar mest um að nú eru leikskólaliðar flokkaðir með starfsfólki sem lokið hefur annarri uppeldismenntun en leikskólakennaraprófi í stað þess að teljast með ófaglærðum starfsmönnum. Ófaglærðum starfsmönnum við uppeldi og menntun fækkar um 333 (12,7%) en fjöldi starfsmanna sem sinnir öðrum störfum, s.s. matreiðslu og þrifum, er óbreyttur. Það skal tekið fram að hér er um tvær punktmælingar að ræða. Því koma starfsmenn sem hófu störf árið 2011 og hættu störfum fyrstu 11 mánuði ársins ekki fram í tölunum.

Starfsmönnum undir 30 ára aldri fækkar
Þegar rýnt er nánar í tölur um fjölda starfsmanna eftir aldri má sjá að starfsmönnum fækkar um 54 í aldurshópnum 20-29 ára. Hins vegar fjölgar um 44 starfsmenn í aldurshópnum 50-59 ára og um 30 starfsmenn í aldurshópnum 60-67 ára. Hlutfall starfsmanna 30-49 ára hefur haldist svo til óbreytt frá árinu 1998.

 

Leikskóli og grunnskóli í einni stofnun
Í kjölfar laga um leikskóla og grunnskóla frá árinu 2008 er orðið algengara að leikskólar og grunnskólar og jafnvel tónlistarskólar séu reknir sem ein skólastofnun með einum stjórnanda. Í gagnasöfnunum Hagstofunnar eru skólastjórar í slíkum stofnunum taldir bæði til starfsmanna leikskóla og grunnskóla en stöðugildum skipt í hlutfalli við vinnu skólastjórans. Þessi samrekstur skýrir fjölgun karla meðal leikskólastjóra frá árinu 2008. Á þeim tíma hefur körlum meðal leikskólastjóra fjölgað úr 4 í 10 á meðan stöðugildum þeirra hefur fjölgað úr þremur í fjögur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.