FRÉTT MENNTUN 22. FEBRÚAR 2007


Starfsfólki við kennslu fjölgar um 120 þrátt fyrir fækkun nemenda
Haustið 2006 voru 7.561 starfsmenn í grunnskólum á Íslandi. Starfsmenn við kennslu voru 4.961 og hefur fjölgað um 120 frá hausti 2005, sem er 2,5% fjölgun. Þessir starfsmenn eru í 4.972 stöðugildum og hefur stöðugildunum fjölgað um 96 frá haustinu 2005, eða um 2,0%. Starfsmönnum við kennslu fjölgar því þrátt fyrir að grunnskólanemendum hafi fækkað um 461 frá síðasta skólaári. Þessi fjölgun kemur eingöngu fram í auknum fjölda sérkennara, sem fjölgar úr 275 í 476 en almennum grunnskólakennurum fækkar á milli ára. Þessar tölur eru úr gagnasöfnun Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um starfsfólk í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Tæplega 86% starfsfólks við kennslu hefur kennsluréttindi
Kennarar með kennsluréttindi eru 4.261 og fjölgar um 64 frá fyrra ári. Ekki hafa áður verið fleiri réttindakennarar starfandi í íslenskum grunnskólum frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1997. Kennurum með réttindi fækkar lítið eitt hlutfallslega frá hausti 2005 en nú hafa 85,9% þeirra sem sinna kennslu kennsluréttindi á móti 86,7% haustið 2005. Hæsta hlutfall réttindakennara á landinu er í Reykjavík þar sem 93,2% kennara hafa kennsluréttindi. Lægst er hlutfall réttindakennara á Austurlandi þar sem 68,2% kennara hafa kennsluréttindi. Þar hefur einnig orðið mest fækkun réttindakennara frá hausti 2005, en þá höfðu 73,5% kennara kennsluréttindi. Á Vestfjörðum hefur orðið mest fjölgun réttindakennara en þar fjölgaði réttindakennurum úr 65,3% í 72,0%.

Brottfall úr kennslu eykst á milli ára
Alls höfðu 830 starfsmenn við kennslu haustið 2005 hætt störfum haustið 2006 og er brottfallið 17,1%. Þetta er meira brottfall en mælst hefur í gagnasöfnun Hagstofu Íslands frá árinu 1997. Brottfall úr kennslu er hlutfallslega meira meðal þeirra sem ekki hafa kennsluréttindi og meðal þeirra sem eru í hlutastarfi. Haustið 2006 höfðu 611 réttindakennarar hætt eða tekið sér leyfi frá störfum, eða 14,6% þeirra réttindakennara sem störfuðu í grunnskólum haustið 2005. Ekki hefur áður mælst hærra brottfall réttindakennara. Á sama tímabili hættu 34,0% leiðbeinenda eða tóku sér hlé frá störfum.

Flestir grunnskólakennarar eru á fimmtugsaldri
Fjölmennasti aldurshópur starfsfólks við kennslu er 40-44 ára og voru 16,0% kennara á þessu aldursbili. Þegar borið er saman við aldursskiptingu kennara fyrir 5 árum síðan má sjá að hlutfallslega fleiri kennarar eru eldri en 55 ára og færri undir þrítugu en fyrir 5 árum síðan (mynd 2). Þannig eru nú 18,5% kennara 55 ára og eldri en voru 14,1% haustið 2001. Á sama tímabili hefur hlutfall kennara undir þrítugu lækkað úr 14,2% í 11,1%.

 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.