FRÉTT MENNTUN 30. APRÍL 2008


Starfsmönnum við leikskóla fjölgaði um 147 og stöðugildum um 167
Í desember 2007 störfuðu 5.159 starfsmenn í 4.368 stöðugildum við leikskóla á Íslandi og hafa leikskólastarfsmenn aldrei verið fleiri. Árið áður störfuðu 5.012 starfsmenn í 4.201 stöðugildi við íslenska leikskóla og hefur því starfsmönnum fjölgað um 147 milli ára, sem er 2,9% fjölgun. Körlum meðal starfsmanna fjölgaði um 12 en konum um 135. Hlutfallsleg fjölgun karlkyns starfsmanna er 7,1% en 2,8% meðal kvenna.

Stöðugildum starfsmanna hefur fjölgað um 167 frá desember 2006, sem er 4,0% fjölgun. Þar sem stöðugildum fjölgar hlutfallslega meira en starfsmönnum hafa starfsmenn bætt við sig vinnu á þessu ári. Þegar litið er til ársins 1998 voru 41,5% starfsfólks í leikskólum í fullu starfi eða meira. Í desember síðastliðinn var þetta hlutfall orðið 52,6%.

Menntuðum leikskólakennurum fækkar hlutfallslega
Starfsfólki við uppeldi og menntun leikskólabarna sem lokið hafa uppeldismenntun fækkar frá árinu 2006 eftir samfellda fjölgun frá árinu 2000. Í desember 2007 eru 32,6% allra starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum með leikskólakennarapróf en voru 33,5% árið 2006. Auk þess hafa 0,4% starfsfólks við uppeldi og menntun lokið diplómanámi í leikskólakennarafræðum og 6,4% hafa aðra uppeldismenntun (mynd 1). Alls hefur því 39,4% starfsfólks lokið námi í uppeldisfræðum. Starfsfólki með uppeldismenntun hefur fækkað um 0,8% frá fyrra ári.

Fjölgun í elstu aldurshópum starfsmanna
Fjölmennasti aldurshópur starfsmanna er 30-39 ára, eins og undanfarin ár en frá 1998 til 2004 var aldurshópurinn 20-29 ára fjölmennastur meðal leikskólastarfsmanna. Alls voru 265 starfsmenn yngri en 20 ára í desember 2007 (5,1%) en samsvarandi tala árið á undan var 198 starfsmenn. Starfsmenn sem eru sextugir eða eldri eru 292 eða 5,7% starfsmanna. Ekki hafa áður verið svo margir starfsmenn í þessum aldurshópi og hefur hlutfall starfmanna á þessum aldri aukist ár frá ári frá 2002.

Athyglisvert er að sjá að menntuðum leikskólastarfsmönnum fækkar í yngstu aldurshópunum. Þannig fækkar menntuðum leikskólakennurum á aldrinum 20-49 ára um 25 frá fyrra ári. Leikskólakennurum sem eru eldri en 50 ára fjölgar um 29 frá árinu 2006. Menntuðum leikskólakennurum fjölgar því aðeins um fjóra á milli áranna 2006 og 2007.

Brottfall starfsmanna eykst á ný
Brottfall starfsmanna á milli áranna 2006 og 2007 var 25,5%, sem er nokkru meira en árið áður, þegar brottfallið var 24,1% (mynd 2). Brottfall er meira meðal ófaglærðra starfsmanna. Hlutfallslega er mest brottfall meðal starfsmanna við ræstingar, eða 41,9%, sem er svipað og árið á undan. Alls hættu 896 ófaglærðir starfsmenn við uppeldi og menntun störfum á milli þessara tveggja ára, sem er 33,6% brottfall. Brottfallið er hlutfallslega minnst meðal leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og deildarstjóra (7,1-9,7%). Meðal menntaðra leikskólakennara var brottfallið 10%.

Það skal tekið fram að hér um tvær punktmælingar að ræða. Því koma starfsmenn sem hófu störf árið 2007 og hættu störfum fyrstu 11 mánuði ársins ekki fram í tölunum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.