Hagstofa Íslands birtir nú upplýsingar um starfstíma í framhaldsskólum skólaárið 2003-2004. Í lögum um framhaldsskóla er kveðið á um að árlegur starfstími nemenda skuli eigi vera skemmri en níu mánuðir; þar af skuli kennsludagar ekki vera færri en 145. Samkvæmt upplýsingum skólanna var fjöldi reglulegra kennsludaga skólaárið 2003-2004 á bilinu 140 til 160. Meðalfjöldi reglulegra kennsludaga var 146 sem er degi meira en síðastliðin tvö skólaár. Auk þeirra voru aðrir kennsludagar á bilinu 0 til 5 (með einni undantekningu), eða 2 að meðaltali. Að jafnaði voru reglulegir kennsludagar nemenda tveimur fleiri á vorönn en á haustönn.
Í reglugerð um starfstíma framhaldsskóla er ákvæði um að kennslu- og prófdagar skuli ekki vera færri en 175. Í 13 skólum reyndust kennslu- og prófdagar vera færri en 175.
Samkvæmt upplýsingum skóla var fjöldi daga sem einungis var varið til prófa og námsmats frá 16 til 37, með einni undantekningu; að meðaltali 25 dagar.
Kjarasamningar kennara gera ráð fyrir samtals 175 kennslu- og prófdögum á níu mánaða starfstíma skóla og að auki fjórum vinnudögum kennara utan árlegs starfstíma. Heildarfjöldi vinnudaga kennara á skólaárinu 2003-2004 reyndist vera á bilinu 172 til 188. Meðalfjöldi allra vinnudaga kennara var 181, óbreyttur frá fyrra ári. Þar af voru að meðaltali 177 á árlegum starfstíma skóla.
Gagna um fjölda kennsludaga, prófdaga og annarra vinnudaga kennara var aflað frá 33 framhaldsskólum. Á síðastliðnu starfsári bættust Kvikmyndaskóli Íslands, Menntaskólinn Hraðbraut og Snyrtiskólinn við í gagnaöflunina. Tveir þeir síðastnefndu starfa eftir þriggja anna kerfi og eru því ekki taldir með í meðaltölunum hér að ofan.
Talnaefni (Sjá: Starfstími framhaldsskóla 2001-2004)