FRÉTT MENNTUN 01. OKTÓBER 2009

Í nýjum lögum um grunnskóla frá árinu 2008 segir að árlegur starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skulu ekki vera færri en 180 á hverju skólaári. Að lágmarki skal í 1.-4. bekk kenna í 1.200 mínútur (30 kennslustundir), á miðstigi, þ.e. í 5.-7. bekk, skal að lágmarki kenna í 1.400 mínútur (35 kennslustundir) og í 8.-10. bekk að lágmarki í 1.480 mínútur (37 kennslustundir) á viku. Ef þessar mínútur eru umreiknaðar í 40 mínútna kennslustundir fær hver nemandi að lágmarki 336 vikulegar kennslustundir á sínum tíu ára grunnskólaferli, eða 33,6 á ári að meðaltali.

Fækkun kennslustunda milli ára
Í vorskýrslu grunnskóla er spurt um kennslustundir á viku (í mínútum) eftir námsgreinum. Í 1.-10. bekk hefur kennslustundum samtals fækkað um 6,8 á viku frá árinu á undan. Skólaárið 2007-2008 fengu nemendur í 1.-10. bekk samanlagt 346,1 kennslustund á viku, en ári síðar hefur kennslustundum fækkað niður í 339,3 á viku. Mest er fækkunin í 5. bekk eða að meðaltali ein kennslustund. Haldist þessi fjöldi tíma óbreyttur fá nemendur samt fleiri kennslustundir á viku en lágmarkskennslutími sem kveðið er á um í grunnskólalögum. Þegar litið er á einstakar námsgreinar er mest fækkun í upplýsinga- og tæknimennt, 1,2 stund, og í íslensku, 1,0 stund. Eina námsgreinin sem heldur sínu á milli ára er enska.

Einnig má sjá út frá þessum upplýsingum að 6 ára gamalt barn, sem er að hefja skólagöngu, getur vænst þess að fá rúmlega 63 vikulegar kennslustundir í íslensku á grunnskólagöngu sinni, og skiptast þessar stundir niður á 10 skólaár. Samsvarandi fjöldi stunda í náttúru- og samfélagsfræði er 58,1 og 54,5 stundir í stærðfræði. Rúmlega helmingur (51,8%) kennslustunda grunnskólans er varið til kennslu þessara námsgreina.

Skóladagar eru 179,5 að meðaltali
Skóladagar skiptast í kennsludaga, prófdaga og aðra daga. Með öðrum dögum er átt við þá daga þar sem skólastarf samkvæmt stundaskrá undir stjórn kennara fer ekki fram, t.d. þegar farið er í skólaferðalög og vettvangsferðir. Í gögnum frá vori 2009 er ekki teljandi munur á fjölda skóladaga eftir bekkjum. Meðalfjöldi skóladaga allra bekkja var 179,5 og er það fjölgun um 0,2 daga frá fyrra ári. Fæstir voru prófdagar hjá nemendum í 1.-3 bekk; 0,5 dagar. Flestir voru prófdagarnir hjá 10. bekkingum; 4,3 að meðaltali, sem er fækkun um tæplega 3 daga frá fyrra skólaári.

Starfsdagar kennara eru tæplega 13 á skólaárinu
Vinnudagar kennara án barna, svokallaðir starfsdagar, voru að meðaltali 12,9 á síðastliðnu skólaári. Að meðaltali voru 4,9 starfsdagar teknir á starfstíma skóla og 8,0 dagar utan starfstíma skóla, svokallaðir skipulagsdagar að hausti og vori.

Vinnudagar grunnskólakennara voru að meðaltali 179 talsins með nemendum og 13 starfsdagar, eða 192 vinnudagar alls. Þetta er óbreyttur fjöldi frá síðastliðnu skólaári.

Tæplega fjórðungur nemenda nýtur stuðnings
Skólaárið 2008-2009 nutu 10.650 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðnings, sem er 24,5% allra nemenda. Er það fjölgun um 10 nemendur frá fyrra skólaári. Hlutfallslega flestir nemendur 4. bekkjar (9 ára nemendur) nutu stuðnings eða 28,1% af árganginum. Hlutfallslega fæstir 1. bekkjar nemendur njóta stuðnings, 19,3% nemenda. Af þeim nemendum sem njóta stuðnings eru 62,5% drengir og 37,5% stúlkur. Þegar borið er saman við eldri tölur fá færri nemendur eingöngu stuðning í sérkennsluveri en fleiri nemendur fá nú stuðning bæði í sérkennsluveri og inni í almennum bekk.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.