FRÉTT MENNTUN 01. OKTÓBER 2010


Samdráttur í kennslustundum til sérkennslu og stuðnings
Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn tölur um vikulegar kennslustundir sem varið er til sérkennslu og stuðnings í grunnskólum landsins og ná tölurnar til síðustu sex skólaára. Gerður er greinarmunur á vinnu sérkennara annars vegar og stuðningsfulltrúa og uppeldisfulltrúa hins vegar. Skólaárið 2009-2010 var 43.049 kennslustundum á viku varið til sérkennslu og stuðnings í grunnskólum landsins. Þar af voru 17.285 kennslustundir sérkennara (40,2%) og 25.764 kennslustundir stuðningsfulltrúa (59,8%). Skólaárið 2007-2008 voru kennslustundir við sérkennslu og stuðning flestar eða 44.490. Frá skólaárinu 2007-2008 hefur vikulegum kennslustundum sem ætlaðar eru til sérkennslu og stuðnings fækkað um 1.441 eða 3,2%. Á sama tíma hefur grunnskólanemendum fækkað um 2,1% og nemendum sem njóta sérkennslu eða stuðnings fjölgað um 0,1%.

Tæplega fjórðungur nemenda nýtur stuðnings
Skólaárið 2009-2010 nutu 10.654 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðnings, sem er 24,8% allra nemenda. Það er fjölgun um fjóra nemendur frá fyrra skólaári. Eins og undanfarin ár njóta hlutfallslega flestir nemendur 4. bekkjar (9 ára nemendur) stuðnings eða 28,5% af árganginum. Af þeim nemendum sem njóta stuðnings eru 61,2% drengir og 38,8% stúlkur. Drengjum sem njóta stuðnings fækkaði á milli ára en stúlkum fjölgaði. Fleiri nemendur fá stuðning í sérkennsluveri skólaárið 2009-2010 en árið áður en nemendum sem njóta stuðnings bæði í veri og bekk fækkar. 

 

Vikulegum kennslustundum fækkar um 1,4 milli ára
Í 1.-10. bekk hefur vikulegum kennslustundum fækkað um 1,4 á viku að meðaltali frá skólaárinu 2008-2009. Fækkunin kemur aðallega fram í 2.-4. bekk en einnig fækkar kennslustundum að meðaltali í 6.-8. bekk. Skólaárið 2009-2010 fengu nemendur í 1.-10. bekk samanlagt 337,9 kennslustundir á viku, sem er nálægt því að vera meðalfjöldi kennslustunda síðastliðin 10 ár. Flestar voru kennslustundirnar skólaárið 2007-2008 þegar þær voru 346,1.

Í lögum um grunnskóla frá árinu 2008 segir að árlegur starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skulu ekki vera færri en 180 á hverju skólaári. Að lágmarki skal í 1.-4. bekk kenna í 1.200 mínútur (30 kennslustundir), á miðstigi, þ.e. í 5.-7. bekk, skal að lágmarki kenna í 1.400 mínútur (35 kennslustundir) og í 8.-10. bekk að lágmarki í 1.480 mínútur (37 kennslustundir) á viku. Ef þessar mínútur eru umreiknaðar í 40 mínútna kennslustundir fær hver nemandi að lágmarki 336 vikulegar kennslustundir á sínum tíu ára grunnskólaferli, eða 33,6 á ári að meðaltali.

Nemendur í grunnskólum fengu því 1,9 kennslustundum meira á viku skólaárið 2009-2010 en lágmarksfjöldi kennslustunda samkvæmt grunnskólalögum. Hins vegar er meðalfjöldi kennslustunda undir viðmiðun grunnskólalaga í 5.-6. bekk og 8.-10. bekk, eða 0,1-0,2 kennslustundum undir viðmiðun laganna.

Skóladagar eru 179,8 að meðaltali
Skóladagar skiptast í kennsludaga, prófdaga og aðra daga. Með öðrum dögum er átt við þá daga þar sem skólastarf samkvæmt stundaskrá undir stjórn kennara fer ekki fram, t.d. þegar farið er í skólaferðalög og vettvangsferðir. Ekki er teljandi munur á fjölda skóladaga eftir bekkjum. Meðalfjöldi skóladaga allra bekkja var 179,8 og er það fjölgun um 0,3 daga frá fyrra ári. Í um 90% skóla eru skóladagar nemenda 180 talsins en þeir voru fæstir 143 og flestir 200. Skóladagar voru færri en 180 í 7-13 skólum, eftir því um hvaða bekk er að ræða. Skólaárið 2008-2009 var meiri dreifing á fjölda skóladaga eftir skólum, en þá voru skóladagar nemenda 180 talsins í um 80% grunnskóla.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.