Fullveldisafmæli

Í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands birtir Hagstofan fréttir á árinu með sögulegu efni sem tengist fullveldistímanum. Hagstofan opnaði vef með sögulegum hagtölum 1. desember 2017 en þar er hægt að finna samfelldar tímaraðir í nokkrum efnisflokkum eins langt aftur og heimildir leyfa.

Vorið 1918 brautskráðust 24 karlar og tvær konur með stúdentspróf á Íslandi eða 1,6% af fjölda tvítugra landsmanna. Tæpum hundrað árum síðar eða árið 2016 var hlutfallið 73,7% en það ár brautskráðust 1.935 konur á móti 1.486 körlum.


© Wikipedia

Hærra hlutfall kvenstúdenta frá 1978
Skólaárið 1917–1918 voru karlar 92% brautskráðra stúdenta. Skólaárið 1974–1975 var hlutfall kynjanna orðið nokkuð jafnt en varð síðan hærra hjá konum 1977–1978. Allar götur síðan hafa fleiri konur verið brautskráðar en karlar. Skólaárið 2015–2016 voru 57% nýstúdenta konur og 43% karlar.

Mikil fjölgun framhaldsskóla á síðasta fjórðungi 20. aldar
Fram til vorsins 1928 var Menntaskólinn í Reykjavík eini skólinn hér á landi sem brautskráði stúdenta. Framhaldsskólum fjölgaði ekki að ráði fyrr en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Frá árinu 1974 til ársins 1984 tvöfaldaðist fjöldi framhaldsskóla á Íslandi. Árið 2016 voru alls 34 skólar sem brautskráðu stúdenta. Árið 1918 var einn framhaldsskóli á hverja 100.000 íbúa en árið 2016 voru þeir tíu.


© Ljósmyndasafn Reykjavíkur

https://sogulegar.hagstofa.is — sérvefur