OECD hefur gefið út ritið "Education at a Glance, OECD Indicators 2005". Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um menntun í 30 aðildarríkjum stofnunarinnar. Einnig er þar að finna tölur frá 20 löndum utan OECD, og veitir hluti gagnanna upplýsingar um menntun um 2/3 hluta íbúa heimsins. Tölurnar eru aðallega frá skólaárinu 2002-2003.
Ritið skiptist í fjóra kafla sem fjalla um áhrif menntunar á einstaklinga og samfélagið; fjárfestingu í menntun; aðgang að námi, þátttöku og framfarir í menntun og um skólaumhverfið og skipulag skólakerfisins. Ritinu fylgir samantekt auk fjölda taflna og línurita. Ítarefni má finna á heimasíðu OECD á netinu (http://www.oecd.org).
Menntun og mannauður
OECD leggur áherslu á gildi menntunar í uppbyggingu hagkerfa og samfélaga. Mannauður er lykilatriði í hagvexti og í bættri afkomu fólks. Upplýsingar benda til þess að menntun hafi áhrif á heilsu og félagslega líðan fólks. OECD telur að sum ríki þurfi að gera meira til að bæta aðgengi fólks að símenntun og starfsþjálfun eftir að skólagöngu er lokið. Vísbendingar eru um að símenntun bjóðist frekar þeim sem þegar eru í starfi og hafa mikla menntun fyrir.
Menntun er lykillinn að atvinnu og í flestum OECD löndum hækkar menntunarstig þjóðarinnar. Að jafnaði hafa þrír af hverjum fjórum íbúum OECD landa sem fæddir eru á 8. áratug síðustu aldar lokið framhaldsskólastigi en einungis helmingur íbúa sem fæddir eru á 5. áratug síðustu aldar. Menntun á framhaldsskólastigi leggur grunninn að starfi á vinnumarkaði, að sögn OECD.
Menntun og tekjur
Niðurstöður rannsókna benda til þess að munur á tekjum þeirra sem hafa meiri og minni menntun fari vaxandi. Auk þess eru íbúar sem ekki hafa framhaldsskólamenntun í aukinni hættu á að verða atvinnulausir. Frá árinu 1997 jókst tekjumunur á milli þeirra sem hafa lokið háskólaprófi og þeirra sem eingöngu hafa lokið framhaldsskólastigi í 22 af 26 OECD löndum. Þessi tekjumunur er frá um 25% upp í 119% í OECD ríkjunum. Konur fá ennþá lægri laun en karlar sem hafa lokið sama menntunarstigi og er algengt að konur fái 60-80% af launum karla sem hafa lokið sama menntunarstigi. Nokkur munur er á því hvernig laun dreifast hjá fólki sem hefur lokið sama menntunarstigi. Enda þótt algengast sé að þeir sem hafi lokið meiri menntun hafi hærri tekjur er það einnig til að fólk með mikla menntun sé í lægri tekjuhópunum, sem bendir til þess að ávöxtun af menntun sé mismunandi mikil innan landanna.
Útgjöld til menntamála
Heildarútgjöld Íslendinga til menntamála námu 7,4% af vergri landsframleiðslu árið 2002 og er Ísland komið í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Næst koma Bandaríkin með 7,2%. Meðaltal OECD ríkja árið 2002 er 5,8%. Heildarútgjöld Íslendinga til menntamála hafa aukist úr 6,7% af vergri landsframleiðslu árið 2001. Ef eingöngu eru skoðuð opinber útgjöld til menntunar er Ísland í 5. sæti meðal OECD ríkja og fara 15,6% opinberra útgjalda til menntunar hér á landi. Almennt má segja að aldursdreifing þjóðanna hafi veruleg áhrif á hvers kyns samanburð útgjalda til menntamála. Þegar útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla eru skoðuð er Ísland í 9. sæti OECD ríkja með 7.548 bandaríkjadali á hvern nemanda í fullu námi en meðaltal OECD ríkja er 6.687 bandaríkjadalir. Ísland ver talsvert yfir meðaltali OECD ríkja til menntunar á grunnskólastiginu en er rétt undir meðaltali hvað varðar útgjöld á nemanda á framhaldsskólastigi (14. sæti). Ísland ver 8.251 bandaríkjadölum á nemanda á háskólastigi sem er um 2.400 bandaríkjadölum undir meðaltali OECD ríkja (17. sæti).
Í mörgum OECD löndum er fjármögnun menntunar að breytast. Þannig treysta margir háskólar nú meira á einkafjármagn en áður, t.d. með innheimtu skólagjalda. Einnig bendir OECD á að útgjöld og góður árangur nemenda fari ekki alltaf saman. Þannig eyða t.d. Finnland, Holland, Japan og Kórea nálægt meðaltali OECD ríkja til grunnskólans en samt sýna nemendur þeirra mjög góðan árangur í PISA rannsókninni sem framkvæmd er á 15 ára nemendum.
Fjöldi kennslustunda í grunnskólum
Samkvæmt Education at a Glance fá 7-14 ára börn kennslu í um 6.300 klukkustundir í grunnskóla á Íslandi. Athygli vekur að fæstar stundir eru kenndar á þessum aldri í Finnlandi, um 5.500, en Finnland hefur jafnframt komið einna best út úr PISA könnuninni. Í Japan og Kóreu eru kenndar færri en 6.000 klukkustundir á þessum aldri. Í fjórum löndum fá börn á þessu aldursbili 8.000 klukkustunda kennslu eða meira.
Skólasókn
Árið 2003 gat fimm ára barn á Íslandi vænst þess að sækja skóla í 19,2 ár sem er um 15% aukning frá árinu 1995. Meðaltal OECD ríkja er 17,3 ár. Íslenskir drengir geta vænst þess að sækja skóla að meðaltali í 18,2 ár en stúlkur í 20,2 ár. Munurinn á væntanlegri skólasókn drengja og stúlkna á Íslandi er með því mesta sem þekkist í OECD ríkjunum. Að auki er hlutfall íslenskra barna sem sækja leikskóla með því hæsta sem gerist innan OECD. Margir Íslendingar sækja skóla eftir að hefðbundnum skólaaldri lýkur. Þannig er rúmlega þriðjungur aldurshópsins 20-29 ára (35,6%) í námi og tæplega tíundi (9,6%) hver íbúi á aldrinum 30-39 ára.
Nemendum á háskólastigi hefur fjölgað hratt undanfarin ár á Íslandi, eins og í mörgum OECD löndum. Frá 1995 til 2003 fjölgaði nemendum á háskólastigi á Íslandi um 83%. Ef núverandi innritunarhlutfall í háskólanám helst óbreytt mun rúmlega helmingur ungs (53%) fólks í OECD löndum stunda fræðilegt háskólanám einhvern tímann á lífsleiðinni. Ísland hefur hæsta innritunarhlutfall allra OECD landa í fræðilegt háskólanám og mun 83% ungs fólks á Íslandi stunda fræðilegt háskólanám ef núverandi innritunarhlutfall helst. Innritunarhlutfall er reiknað þannig að fundið er hlutfall nýinnritaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan lagt saman fyrir alla aldurshópa. Þetta háa innritunarhlutfall á Íslandi skýrist að hluta til af fjölda eldri háskólanema. Svo hátt innritunarhlutfall mun því væntanlega ekki haldast til lengdar þar sem fjöldi eldra fólks sem aldrei hefur stundað háskólanám er takmarkaður.
Vinna með námi
Á Íslandi er miklu algengara að stúlkur á aldrinum 15-24 ára vinni með námi en drengir. Þannig stunduðu 35,9% 15-19 ára stúlkna vinnu með námi árið 2002 en sambærilegt hlutfall meðal drengja var 23,2%. Meðaltal í OECD ríkjunum árið 2003 var 11,3% og að auki voru 4,9% nemenda á námssamningi.
Rekstrarform skóla
Mikil umræða hefur farið fram í OECD löndunum um það hvort einkaskólar veiti betri menntun en opinberir skólar. Í ritinu er skoðað hvort munur sé á gæðum menntunar eftir rekstrarformi skóla og er frammistaða 15 ára nemenda í PISA könnuninni notuð í þeim tilgangi. OECD segir að þessi samanburður sé flókinn þar sem aðbúnaður nemenda og starfsmanna og stjórnun skóla sé mismunandi innan OECD landanna. Niðurstöðurnar sýna að í 9 af 22 OECD löndum standa nemendur einkaskóla sig betur en í 2 löndum nemendur opinberra skóla. Ljóst er að einkaskólar eru gjarnan dýrari kostur fyrir foreldra þar sem þeir innheimta oft skólagjöld. Þegar niðurstöðurnar hafa verið leiðréttar með tilliti til félagslegs bakgrunns nemenda og félagslegrar samsetningar skólahverfisins er ekki lengur merkjanlegur munur á frammistöðu nemenda einkaskóla og opinberra skóla.
Fréttatilkynningu OECD um Education at a Glance og samantekt úr ritinu á íslensku má finna á heimasíðu OECD, http://www.oecd.org.