FRÉTT MENNTUN 18. SEPTEMBER 2007

Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur gefið út ritið "Education at a Glance 2007, OECD Indicators". Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um menntun í 30 aðildarríkjum stofnunarinnar. Einnig er þar að finna tölur frá Brasilíu, Chile, Eistlandi, Ísrael, Rússlandi og Slóveníu, sem standa utan OECD. Tölurnar eru aðallega frá skólaárinu 2004-2005.

Ritið skiptist í fjóra kafla sem fjalla um: Áhrif menntunar á einstaklinga og samfélagið; fjárfestingu í menntun; aðgang að námi, þátttöku og framfarir í menntun og um skólaumhverfið og skipulag skólakerfisins. Ritinu fylgir samantekt auk fjölda taflna og línurita. Í þessari útgáfu var gert átak í fjölgun tímaraða frá fyrri árum. Ítarefni má finna á heimasíðu OECD á netinu (http://www.oecd.org).

Fjölgun háskólamenntaðra
Í ritinu er sjónum beint að fjölgun háskólamenntaðra í meðlimalöndum OECD, og áhrifum fjölgunarinnar á vinnumarkaðinn. Spurt er hvort fjölgun háskólamenntaðra á vinnumarkaði haldist í hendur við fjölgun starfa sem krefjast háskólamenntunar, eða hvort háskólamennaðir taki störf frá öðrum sem hafi minni menntun. Munu allir sem hafa lokið háskólagráðu einn daginn vinna fyrir lágmarkslaun?, spyr OECD. Niðurstöður stofnunarinnar eru að enn sem komið er séu engin teikn um “verðbólgu” í prófgráðum og að aukinn fjöldi háskólamenntaðra hafi haft jákvæð áhrif á einstaklinga og hagkerfi landanna. Í þeim OECD löndum sem eiga tölur um menntun og tekjur, eru tekjur þeirra sem hafa lokið háskólamenntun a.m.k. 25% hærri en þeirra sem hafa eingöngu lokið framhaldsskólamenntun. Í Ungverjalandi, þar sem munurinn er mestur, er hann yfir 100%.

Nemendum á háskólastigi hefur fjölgað hratt undanfarin ár á Íslandi, líkt og í flestum OECD löndum. Ísland hefur eitt hæsta nettó innritunarhlutfall allra OECD landa í fræðilegt háskólanám, 74%, en meðaltal OECD landa er 54%. Hvergi í OECD ríkjunum er eins mikill munur á innritunarhlutfalli karla og kvenna í fræðilegt háskólanám eins og á Íslandi. Innritunarhlutfall karla er 53% en kvenna 96%, sem gefur vísbendingu um að ef núverandi innritunarhlutfall helst muni 96% kvenna og 53% karla stunda fræðilegt háskólanám einhvern tímann á ævinni. Nettó innritunarhlutfall er reiknað þannig að fundið er hlutfall nýinnritaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er lagt saman fyrir alla aldurshópa. Þetta háa innritunarhlutfall á Íslandi skýrist að hluta til af fjölda eldri háskólanema. Svo hátt innritunarhlutfall mun því væntanlega ekki haldast til lengdar þar sem fjöldi eldra fólks sem aldrei hefur stundað háskólanám er takmarkaður.

Í mörgum OECD löndum hafa útgjöld til háskóla aukist en ekki náð að halda í við mikla fjölgun háskólanema með þeim afleiðingum að útgjöld á nemanda hafa lækkað. Ríkin þurfa því að huga að því hvernig háskólanám er fjármagnað, og eru birtar upplýsingar í ritinu um könnun OECD á fjármögnun háskólanáms. Þá er í fyrsta skipti birtur vísir, sem er í þróun, um skilvirkni í skólakerfinu. Þar kemur fram að á grunnskólastigi mætti bæta útkomu úr skólakerfinu um 22% að meðaltali í OECD ríkjunum án þess að auka fjárveitingar.

Á Íslandi er nettó útskriftarhlutfall í háskólanámi með því hæsta sem gerist í OECD löndunum. Nettó útskriftarhlutfall fyrir fyrstu háskólagráðu úr fræðilegu háskólanámi (stig 5A) á Íslandi er 56% en meðaltal OECD ríkja er 36%. Að auki er nettó útskriftarhlutfall fyrir starfsnám á háskólastigi (stig 5B) á Íslandi 4% en 9% að meðaltali í OECD ríkjum. Nettó útskriftarhlutfall er fundið þannig að reiknað er hlutfall útskrifaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er hlutfallið lagt saman fyrir alla aldurshópa.

Í Education at a Glance er borið saman brottfall nemenda á háskólastigi. Á Íslandi luku 69% nemenda á háskólastigi námi. Það er nálægt meðaltali OECD ríkjanna, sem var 70%.

Útgjöld til menntamála
Útgjöld Íslendinga til menntastofnana á nemanda í bandaríkjadölum árið 2004 voru umtalsvert hærri en árið 2003. Alls vörðu Íslendingar 8.264 bandaríkjadölum á hvern nemanda í fullu námi frá grunnskólastigi til háskólastigs en höfðu varið 7.438 bandaríkjadölum á nemanda árið 2003.  Meðaltal OECD ríkja 2004 var 7.061 bandaríkjadalir. Á öllum skólastigum nema á leikskólastigi vörðu Íslendingar hærri upphæð á nemanda árið 2004 en árið 2003.

Heildarútgjöld Íslendinga til menntamála námu 8,0% af vergri landsframleiðslu árið 2004 og var Ísland í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Ísland varði einnig 8,0% af vergri landsframleiðslu til menntamála árið 2003. Meðaltal OECD ríkja var 5,8%. Almennt má segja að aldursdreifing þjóðanna og þátttaka í menntun hafi veruleg áhrif á útgjöld til menntamála. Þannig eru útgjöld yfirleitt hærri í löndum þar sem börn og unglingar eru stór hluti íbúa og þar sem nemendur eru hátt hlutfall mannfjöldans. Þegar útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla eru skoðuð er Ísland með þeim OECD ríkjum þar sem varið er mestu fé til nemenda á yngri skólastigunum. Þannig er Ísland í 3. sæti OECD ríkja yfir útgjöld til menntunar á leikskólastigi, í 5. sæti á barnaskólastigi og 7. sæti á unglingastigi. Ísland er hins vegar undir meðaltali OECD ríkjanna þegar útgjöld á nemanda á framhaldsskólastigi (15. sæti) og á háskólastigi (17. sæti) eru skoðuð.

Skipting útgjalda til menntamála milli þess opinbera annars vegar og einkaaðila hins vegar hefur verið til umræðu á Íslandi og í öðrum OECD ríkjum. Útgjöld einkaaðila til menntastofana á Íslandi hækkuðu lítillega á milli áranna 2003 og 2004, eða frá 9,0% í 9,4% af öllum útgjöldum til menntastofnana. Meðtaltal OECD ríkja er 13,0% og eru útgjöld einkaaðila á Íslandi því talsvert lægri en að meðaltali í OECD ríkjunum.

Lítill munur á launum kennara eftir starfsaldri á Íslandi miðað við OECD ríkin
Í ritinu eru aðstæður kennara skoðaðar og bornar saman á milli OECD landa. Vinnutími, laun, hlutfall nemenda á kennara og bekkjarstærð eru m.a. til umfjöllunar. Samkvæmt Education at a Glance hækka grunnlaun kennara á Íslandi með auknum starfsaldri umtalsvert minna en að meðaltali í OECD ríkjunum. Hlutfall grunnlauna grunnskólakennara í efsta launaflokki eftir 15 ára starfsaldur af byrjunarlaunum er 1,32 og 1,31 í framhaldsskólum, en meðtal OECD ríkjanna er á bilinu 1,69-1,71. Þá eru grunnlaun kennara á Íslandi með þeim lægstu í OECD ríkjunum, þegar þau eru borin saman við landsframleiðslu á mann. Hlutfall grunnlauna grunnskólakennara eftir 15 ára starfsaldur af landsframleiðslu á mann er 0,75 árið 2004-2005. Aðeins Noregur hefur lægra hlutfall en Ísland, eða 0,74. Meðaltal OECD ríkja er 1,28 á barnaskólastigi og 1,30 á unglingastigi. Á framhaldsskólastigi er sömu sögu að segja en þar er hlutfallið á Íslandi 0,88, í Noregi 0,80 en að meðaltali 1,41 í OECD ríkjunum. OECD bendir á að laun kennara séu stærsti einstaki þátturinn í útgjöldum til menntamála. Einnig er bent á að margs þurfi að gæta í alþjóðlegum samanburði á launum kennara. Þannig sé kennslutími kennara mislangur á milli landa og bekkir misstórir. Þá er ekki tekið tillit til aukagreiðslna af ýmsu tagi, né heldur skatta og ýmissa annarra opinberra greiðslna.

OECD ríkin og samlögun innflytjenda
Í Education at a Glance fjallar OECD um mikilvægi þess að innflytjendur samlagist þjóðfélaginu. Í PISA könnuninni, sem gerð hefur verið meðal 15 ára námsmanna, kemur fram að í þeim 14 OECD ríkjum þar sem innflytjendur eru umtalsverður hluti fólksfjöldans dragast námsmenn af fyrstu kynslóð innflytjenda aftur úr innfæddum jafnöldrum sínum um 48 stig að meðaltali á mælikvarða PISA yfir stærðfræði. Það jafngildir framvindu rúmlega eins skólaárs. Frammistaða námsmanna af annarri kynslóð innflytjenda er enn á eftir sem samsvarar 40 stigum. Það er mjög misjafnt eftir löndum hversu mikill munur er á frammistöðu nemenda af erlendum uppruna og innfæddra nemenda. Athygli vekur að nemendur af erlendum uppruna telja líklegra að þeir muni ljúka háskólanámi en aðrir nemendur með sömu námsgetu. Tölur um frammistöðu og væntingar innflytjenda úr PISA könnuninni eru ekki til frá Íslandi.

Fréttatilkynningu OECD um Education at a Glance og samantekt úr ritinu á íslensku má finna á heimasíðu OECD, http://www.oecd.org.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.