FRÉTT MENNTUN 07. SEPTEMBER 2010

Menntun er fjárhagslega hagkvæm, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið. Opinber framlög til menntunar skila sér til baka í hærri skatttekjum. Þar við bætast jákvæð áhrif menntunar á þjóðfélagið sem ekki mælast í auknum skatttekjum. Þetta kemur fram í ritinu "Education at a Glance 2010, OECD Indicators", sem Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur gefið út. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um menntun í 31 aðildarríki stofnunarinnar, sem og tölur frá Brasilíu, Eistlandi, Indlandi, Indónesíu, Ísrael, Kína, Rússlandi og Slóveníu. Tölurnar eru aðallega frá skólaárinu 2007-2008. Meirihluti talna um Ísland er byggður á gögnum frá Hagstofu Íslands.

Ritið skiptist í fjóra kafla: Áhrif menntunar á einstaklinga og samfélagið; fjárfestingu í menntun; aðgang að námi, þátttöku og framfarir í menntun og um skólaumhverfið og skipulag skólakerfisins. Í ritinu má finna fjölda taflna og línurita. Ítarefni má finna á vef OECD.

Ísland varði mestu OECD ríkja til menntastofnana árið 2007
Almennt má segja að aldursdreifing þjóðanna og þátttaka í menntun hafi veruleg áhrif á útgjöld til menntamála. Þannig eru útgjöld yfirleitt hærri í löndum þar sem börn og unglingar eru stór hluti íbúa og þar sem nemendur eru hátt hlutfall mannfjöldans, eins og á Íslandi.

Útgjöld Íslendinga til menntastofnana námu 7,8% af vergri landsframleiðslu árið 2007 og var Ísland í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Vegið meðaltal OECD ríkja var 6,2% og meðaltal ríkjanna var 5,7%. Útgjöld til menntastofnana sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á Íslandi lækkuðu um 0,2% frá árinu 2006. Á Íslandi var 17,4% útgjalda hins opinbera varið til menntamála árið 2007 en að meðaltali vörðu OECD ríkin 13,3% útgjalda hins opinbera til menntamála. Í öllum OECD ríkjunum þar sem sambærilegar tölur eru til, jukust útgjöld opinberra aðila til menntamála á árunum 2000 til 2007. Útgjöld einkaaðila til menntunar jukust þó hraðar en opinber útgjöld í meira en ¾ OECD landanna. Þrátt fyrir þessa aukningu einkaútgjalda eru 82,6% útgjalda til menntamála opinber útgjöld.

Þegar útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla eru skoðuð vörðu OECD ríkin að meðaltali 8.216 bandaríkjadölum á nemanda árið 2007. Ísland varði 9.015 dölum á nemanda á árinu og er í 11. sæti OECD ríkja. Ísland ver talsvert yfir meðaltali OECD ríkja til menntunar á leikskólastigi (2. sæti) og grunnskólastigi (4. sæti á barnaskólastigi og 10. sæti á unglingastigi) en er undir meðaltali hvað varðar útgjöld á nemanda á framhaldsskólastigi (18. sæti) og á háskólastigi (20. sæti).

 

Margir eldri nemendur stunda nám á Íslandi og kynjamunur er hvergi meiri
Á Íslandi brautskrást hlutfallslega fleiri eldri nemendur á framhaldsskólastigi og háskólastigi en í flestum öðrum OECD löndum. Nettó útskriftarhlutfall er fundið þannig að reiknað er hlutfall útskrifaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er hlutfallið lagt saman fyrir alla aldurshópa. Nettó útskriftarhlutfall á framhaldsskólastigi á Íslandi er 89% en 68% þegar aðeins er litið til nemenda undir 25 ára aldri. Munurinn á þessu hlutfalli er sérstaklega mikill í starfsnámi þar sem útskriftarhlutfallið er 55% en 29% ef eingöngu nemendur undir 25 ára aldri eru taldir með. Nettó útskriftarhlutfall er 74% fyrir karla og 105% fyrir konur og er hvergi í OECD ríkjunum meiri munur á milli karla og kvenna. Meðaltal OECD ríkja er 80% fyrir alla nemendur.

Íslenskir háskólanemendur eru eldri en nemar í öðrum OECD löndum þegar þeir hefja háskólanám. Helmingur nýnema í fræðilegu háskólanámi (stig 5A) í íslenskum háskólum er eldri en 23,2 ára, en 20,4 ára að meðaltali í aðildarlöndum OECD. Nettó útskriftarhlutfall í fræðilegu háskólanámi á Íslandi er 57% en 35% þegar aðeins er litið til nemenda undir 30 ára aldri. Hlutfallið er 37% fyrir karla og 78% fyrir konur. Meðaltal OECD ríkja er 38% fyrir alla nemendur. Hvergi í OECD ríkjunum er meiri munur á útskriftarhlutfalli karla og kvenna í fræðilegu námi á háskólastigi. Þessi fjöldi eldri nemenda á framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi bendir til þess að skólakerfið á Íslandi sé opið og að auðvelt sé að taka aftur upp þráðinn í námi fyrir nemendur sem ekki hafi lokið námi á hefðbundnum aldri.

 

Ungar íslenskar konur eru líklegri en karlar til að vera í starfi sem krefst minni menntunar en þær hafa lokið
Á Íslandi eru konur mun líklegri en karlar til að vera í starfi sem krefst minni menntunar en þær hafa lokið. Árið 2007 voru 21% 25-29 ára íslenskra kvenna en 11% karla sem höfðu lokið háskólamenntun í störfum sem ekki krefjast háskólamenntunar, t.d. í skrifstofustörfum eða þjónustustörfum. Meðaltal OECD ríkja er 23% fyrir karla og 22% fyrir konur. Þá sinntu 6% kvenna og 3% karla sem höfðu lokið framhaldsskólastigi störfum sem ekki krefjast neinnar sérhæfingar en þar er meðaltal OECD ríkja 7% bæði fyrir karla og konur.

Grunnlaun kennara á Íslandi sem hlutfall af launum háskólamenntaðra eru með þeim lægstu meðal OECD ríkja
Hlutfall grunnlauna grunnskólakennara eftir 15 ára starfsaldur og lágmarksmenntun, borið saman við laun háskólamenntaðra á aldrinum 25-64 ára í fullu starfi er 0,50 á Íslandi árið 2006 en 0,77 á barnaskólastigi og 0,79 á unglingastigi að meðaltali í OECD ríkjunum árið 2008. Laun í Tékklandi og Ungverjalandi eru álíka hátt hlutfall af launum háskólamenntaðra en í öðrum OECD löndum er hlutfallið hærra. Á framhaldsskólastigi er sömu sögu að segja en þar er hlutfallið á Íslandi 0,61 en 0,86 að meðaltali í OECD ríkjunum. Laun kennara á framhaldsskólastigi eru lægri í Tékklandi, Ungverjalandi og á Ítalíu en á Íslandi. OECD bendir á að alþjóðlegur samanburður á launum kennara sé vandasamur. Þannig sé kennslutími kennara mislangur á milli landa og bekkir misstórir. Þá er ekki tekið tillit til aukagreiðslna af ýmsu tagi, né heldur skatta og ýmissa annarra opinberra greiðslna.

Möguleikar foreldra á að velja grunnskóla hafa aukist
Í ritinu eru birtar niðurstöður úr fyrstu alþjóðlegu könnuninni á vali foreldra á skólum og áhrifum foreldra á skólastarf í grunnskólum. Fram kemur að í flestum löndum eru ákvarðanir um hvar nemendur skuli settir í opinbera skóla byggðar á búsetu en yfirleitt geta foreldrar valið aðra skóla ef þeir vilja. Möguleikar foreldra á að velja skóla fyrir barn sitt hafa aukist á síðustu 25 árum. Í 18 af 30 OECD löndum eru skólaráð í opinberum skólum þar sem foreldrar eiga fulltrúa, þar með talið á Íslandi. Í 10 af 26 löndum er stjórnvöldum skylt að leita ráða hjá foreldrafélögum við stefnumörkun í skólamálum, þar á meðal á Íslandi.

Fréttatilkynningu OECD um Education at a Glance má finna á vef OECD.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.