FRÉTT MENNTUN 06. OKTÓBER 2004

Hagstofa Íslands hefur lokið úrvinnslu upplýsinga um fjölda útskrifaðra nemenda í framhaldsskólum og háskólum skólaárið 2002/2003.

Mikil fjölgun stúdenta 
Alls útskrifuðust rúmlega 2.500 stúdentar (2.530) úr 29 skólum skólaárið 2002/2003 og hafa aldrei útskrifast fleiri stúdentar á einu skólaári. Stúdentum hefur fjölgað um 333 frá fyrra ári og um 306 frá árinu 1998/1999, sem var metár til þessa. Talsvert fleiri stúlkur en drengir ljúka stúdentsprófi. Skólaárið 2002/2003 luku 1.556 stúlkur stúdentsprófi en 974 drengir. Þessir 2.530 stúdentar útskrifuðust með 2.570 stúdentspróf, því nokkrir útskrifuðust af tveimur eða þremur brautum. Þar af voru 2.362 útskriftir með almennt stúdentspróf og 208 með stúdentspróf verkgreina og viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi. Fjöldinn í síðarnefnda flokknum hefur tæplega tvöfaldast frá fyrra ári.
       Frá árinu 1998/1999 hefur fjöldi stúdenta verið rétt undir 50% af fjölda tvítugra á hverju ári en nú fer hlutfallið upp í 58,4%.

Aldrei fleiri útskrifaðir af framhaldsskólastigi
Alls brautskráðust rúmlega 4.600 (4.631) nemendur á framhaldsskólastigi með tæplega 5.200 (5.177) próf skólaárið 2002/2003. Þetta er fjölgun um 226 nemendur frá fyrra ári, eða 5,1%. Aldrei áður hafa útskrifast svo margir nemendur á framhaldsskólastigi á einu skólaári. Stúlkur eru nokkru fleiri en drengir. Drengjum hefur þó fjölgað mun meira en stúlkum frá fyrra ári, eða um 154 en stúlkum fjölgaði um 72.
       Brautskráningar með sveinspróf voru 565, 23 færri en í fyrra. Einnig fækkaði brautskráningum með hæfnispróf af ýmsu tagi um 153, mest vegna þess að Viðskipta- og tölvuskólinn hætti starfsemi á skólaárinu.

Á háskólastigi fjölgar útskrifuðum um 442, aldrei fleiri útskrifaðir
Á háskólastigi útskrifast tæplega 2.900 (2.884) nemendur með 2.921 próf, og hafa aldrei fleiri útskrifast úr námi á háskólastigi á Íslandi á einu skólaári. Útskrifuðum fjölgar um 442, eða 18,1% frá árinu áður. Útskrifuðum konum fjölgaði um 357 en körlum um 85. Konur eru 63,2% þeirra sem útskrifast með próf á háskólastigi og karlar 36,8% útskrifaðra.
       Útskrifuðum nemendum með fyrstu háskólagráðu fjölgar um 166 frá fyrra ári, og nemendum sem ljúka viðbótarnámi að lokinni fyrstu gráðu, t.d. kennsluréttindanámi, fjölgar um 160. Útskrifuðum með meistaragráðu fækkaði um 28 á milli ára.

 

Talnaefni:
   Framhaldsskólar
   Háskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.