Hagstofa Íslands hefur birt tölur um útskrifaða nemendur í framhaldsskólum og háskólum skólaárið 2003/2004.
Aldrei fleiri útskrifaðir af háskólastigi
Á háskólastigi útskrifast 3.165 nemendur með 3.197 próf, og hafa aldrei fleiri útskrifast úr námi á háskólastigi á Íslandi á einu skólaári. Útskrifuðum fjölgar um 278, eða 9,6% frá árinu áður. Útskrifuðum konum fjölgar um 215 en körlum um 63 og hefur bilið milli kynjanna í fjölda útskrifaðra á háskólastigi því enn breikkað. Konur eru 64,4% þeirra sem útskrifast með próf á háskólastigi og karlar 35,6% útskrifaðra.
Brautskráningum með fyrstu háskólagráðu fjölgar mest eða um 262 frá fyrra ári (15,4%). Nemendum sem ljúka meistaragráðu fjölgar um 98 og eru 51,9% fleiri en árið áður. Alls luku 11 nemendur doktorsgráðu á skólaárinu, 3 fleiri en skólaárið 2002-2003.
4.736 nemendur útskrifaðir af framhaldsskólastigi, aldrei fleiri
Alls brautskráðust rúmlega 4.700 (4.736) nemendur af framhaldsskólastigi með rúmlega 5.200 (5.212) próf skólaárið 2003/2004. Þetta er fjölgun um 105 nemendur frá fyrra ári, eða 2,3%. Aldrei áður hafa svo margir nemendur útskrifast af framhaldsskólastigi á einu skólaári síðan gagnasöfnun Hagstofu Íslands hófst árið 1995. Konur eru nokkru fleiri en karlar eða 54,1% brautskráðra, og fjölgar konum um 150 en körlum fækkar um 45 frá árinu áður. Langflestir nemendur á framhaldsskólastigi útskrifast með stúdentspróf og eru stúdentspróf tæplega helmingur (48,6%) allra brautskráninga. Brautskráningar með sveinspróf voru 508, 57 færri en skólaárið 2002-2003. Tæplega 4 af hverjum 5 (79,1%) sem ljúka sveinsprófi eru karlar. Hins vegar fjölgaði brautskráningum með burtfararpróf úr iðngreinum um 39, úr 595 í 634. Einnig fjölgaði nemendum sem útskrifast sem ýmiss konar hæfnispróf og réttindapróf úr verkgreinum frá árinu áður.
Stúdentum fækkar um 13 frá fyrra ári en fjölgar hlutfallslega
Alls útskrifuðust rúmlega 2.500 stúdentar (2.515) úr 29 skólum skólaárið 2003/2004, 15 færri en skólaárið 2002-2003. Körlum meðal nýstúdenta fækkar um 31 en konum fjölgar um 16 frá fyrra ári. Stúdentum fjölgar þó sem hlutfall af 20 ára árganginum, þar sem sá árgangur er nokkru fámennari en árið áður. Frá árinu 1998/1999 hafði hlutfall stúdenta verið rétt undir 50% af fjölda tvítugra á hverju ári en í fyrra fór hlutfallið upp í 58,4% og nú í 60,3% og hefur aldrei verið hærra. Það vekur athygli hversu miklu fleiri konur en karlar ljúka stúdentsprófi. Skólaárið 2003/2004 luku 1.572 konur stúdentsprófi, 76,7% af fjölda tvítugra það ár en 943 karlar, 44,5% af fjölda tvítugra. Stúdentum á hefðbundnum stúdentsprófsaldri hefur fækkað lítillega en stúdentum yngri en 20 ára og einnig 30 ára og eldri fjölgaði frá skólaárinu 2002-2003. Þessir 2.515 stúdentar útskrifuðust með 2.535 stúdentspróf, því nokkrir útskrifuðust af tveimur eða þremur brautum. Þar af voru 2.195 útskriftir með almennt stúdentspróf og 340 með stúdentspróf verkgreina og viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi. Stúdentum úr síðarnefnda flokknum hefur fjölgað ár frá ári en stúdentum með almennt stúdentspróf fækkaði um 167 frá fyrra ári.
Talnaefni
Framhaldsskólar
Háskólar