FRÉTT MENNTUN 08. OKTÓBER 2009


Aldrei hafa fleiri nemendur útskrifast af háskólastigi á einu skólaári
Á háskólastigi útskrifuðust 3.588 nemendur með 3.611 próf skólaárið 2007-2008. Aldrei hafa fleiri útskrifast úr námi á háskólastigi á Íslandi á einu skólaári síðan gagnasöfnun Hagstofu Íslands hófst árið 1995. Brautskráðum nemendum fjölgaði um 68, eða 1,9% frá árinu áður. Konur voru tveir þriðju (66,4%) þeirra sem útskrifuðust með próf á háskólastigi og karlar þriðjungur (33,6%) útskrifaðra, sem er svipað og verið hefur undanfarin ár.

Ekki hafa fleiri lokið meistaragráðu á Íslandi á einu skólaári til þessa. Þeir voru 735 og fjölgaði um 123 frá fyrra ári, sem er fjölgun um fimmtung (20,1%). Þá luku 23 doktorsprófi á skólaárinu, og hafa ekki fleiri doktorar útskrifast á einu ári frá íslenskum háskólum.

Flestar brautskráningar á háskólastigi eru vegna nemenda sem ljúka fyrstu háskólagráðu. Þær voru 2.374 talsins skólaárið 2007-2008 og hefur fækkað um 130 frá fyrra ári (5,2%). Nú fjölgar útskrifuðum háskólanemendum eingöngu vegna fjölgunar nemenda sem ljúka meistara- og doktorsgráðu.

Brautskráðir nemendur af framhaldsskólastigi hafa aldrei verið fleiri
Alls brautskráðust 5.536 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.150 próf skólaárið 2007-2008. Þetta er fjölgun um 482 nemendur frá fyrra ári, eða 9,5%. Aldrei áður hafa svo margir nemendur útskrifast af framhaldsskólastigi á einu skólaári. Ástæðan er m.a. sú að stórir árgangar eru að fara í gegnum framhaldsskólann. Konur voru nokkru fleiri en karlar meðal brautskráðra eða 53,3% nemenda.

Stúdentum fjölgaði um 251 frá fyrra ári og hafa ekki verið fleiri
Alls útskrifuðust 2.810 stúdentar úr 32 skólum skólaárið 2007-2008; 251 fleiri en skólaárið áður (9,8% fjölgun). Ekki hafa áður útskrifast svo margir stúdentar frá íslenskum skólum á einu skólaári. Þó var hlutfall nýstúdenta af fjölda tvítugra hærra á árunum 2003-2007 en á síðastliðnu skólaári, þegar fjöldi stúdenta var 57,9% af fjölda tvítugra. Körlum meðal nýstúdenta fjölgaði mun meira en konum, eða um 144 (14,6%) en konum fjölgaði um 107 (6,8%) frá fyrra skólaári. Enn ljúka þó miklu fleiri konur en karlar stúdentsprófi. Skólaárið 2007-2008 luku 1.677 konur stúdentsprófi, 71,3% af fjölda tvítugra það ár en 1.133 karlar, 45,3% af fjölda tvítugra.

Tæplega 3.200 brautskráningar úr starfsnámi á framhaldsskólastigi - aldrei fleiri
Brautskráningar úr starfsnámi á framhaldsskólastigi voru 3.165 og hafa ekki verið fleiri á einu skólaári. Brautskráðir nemendur með sveinspróf voru 678. Sveinum fjölgaði um 14 frá fyrra ári (2,1%) og eru karlar rúmlega þrír af hverjum fjórum sem ljúka sveinsprófi (76,7%) en konum fjölgaði um fimmtung (21,5%) meðal sveina frá fyrra ári. Þá voru 878 brautskráningar með ýmiss konar starfsréttindi á framhaldsskólastigi. Brautskráðir iðnmeistarar voru 178 og hafa ekki áður verið fleiri.

Talnaefni
   Framhaldsskólar
   Háskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.