Skólaárið 2012-2013 brautskráðust færri nemendur úr skólum á Íslandi en árið á undan, bæði á framhalds- og háskólastigi. Brautskráðum háskólanemum fækkaði um 78 (-1,9%) frá fyrra ári og er þetta annað árið í röð sem brautskráðum háskólanemum fækkar. Á framhaldsskólastigi fækkaði brautskráðum nemendum um 238 frá fyrra ári, eða 3,9%.
Aldrei fleiri doktorar
Brautskráðir doktorar voru 56 á skólaárinu, 29 karlar og 27 konur, sem er fjölgun um 15 frá fyrra ári, eða 36,6%. Aldrei áður hafa fleiri lokið doktorsprófi á einu skólaári en áður höfðu mest brautskráðst 48 doktorar 2010-2011. Tæplega 40% brautskráðra doktora voru 40 ára eða eldri þegar þeir luku doktorsnámi og tæp 88% voru 30 ára eða eldri. Rúmlega einn af hverjum fjórum doktorum skólaárið 2012-2013 voru erlendir ríkisborgarar, 15 alls.
Færri nemendur brautskráðir af háskólastigi
Skólaárið 2012-2013 útskrifaðist 4.001 nemandi með 4.029 próf á háskóla- og doktorsstigi og voru konur 64,6% þeirra sem luku háskólaprófi. Alls voru 2.589 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu, 5 færri en árið áður (-0,2%) og brautskráðum með viðbótardiplóma fækkaði um einn. Þá voru 1.049 brautskráningar vegna meistaragráðu, 88 (-7,7%) færri en árið áður.
Færri brautskráðir af framhaldsskólastigi
Alls brautskráðust 5.907 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.515 próf skólaárið 2012-2013. Stúlkur voru fleiri en piltar meðal brautskráðra, eða 53,5%.
Færri stúdentar en skólaárið 2011-2012
Alls útskrifuðust 3.463 stúdentar úr 35 skólum skólaárið 2012-2013; 136 færri en skólaárið á undan (-3,8%). Skólaárið 2011-2012 var metár og eingöngu það ár hafa fleiri stúdentar útskrifast en skólaárið 2012-2013. Hlutfall stúdenta af fjölda tvítugra lækkaði einnig frá fyrra ári, úr 74,7% í 71,2%. Konur voru 58,9% nýstúdenta. Brautskráðum með stúdentspróf að loknu starfsnámi hefur fjölgað ár frá ári undanfarin ár og voru 701 skólaárið 2012-2013.
Meðalaldur stúdenta með almennt stúdentspróf var 21 ár en 28 ár með stúdentspróf að loknu starfsnámi. Tíðasti aldur var 20 ár en miðað er við aldur um áramótin eftir lok skólaársins. Alls voru 9,4% stúdenta 19 ára og yngri en 47,6% voru 20 ára. Þá voru 573 nemendur 25 ára eða eldri þegar þeir luku stúdentsprófi, eða 16,5% stúdenta. Þar af voru 258 25 ára og eldri stúdentar úr skólum með frumgreinadeild eða háskólabrú, þ.e. úr Keili, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst, en 315 voru stúdentar frá öðrum skólum.
Fleiri brautskráðust með sveinspróf en færri með iðnmeistarapróf
Alls voru 548 brautskráningar með sveinspróf skólaárið 2012-2013, 30 fleiri en árið áður (5,8%). Karlar voru 78,8% þeirra sem luku sveinsprófi. Meðalaldur við töku sveinsprófs var 29 ár en tíðasti aldur 22 ár.
Brautskráningar með iðnmeistarapróf voru 199, 14 færri en árið á undan (-6,6%). Karlar voru 70,9% iðnmeistara og var meðalaldur útskrifaðra iðnmeistara 35 ár.
Sundurliðaðar upplýsingar um útskrifaða nemendur og fjölda brautskráninga má sjá á vef Hagstofu Íslands.
Talnaefni:
Framhaldsskólastig
Háskólastig