Hagstofan birtir í fyrsta skipti upplýsingar um brautskráða nemendur eftir bakgrunni nemenda. Tölurnar gefa til kynna að munur sé á hlutfalli þeirra sem útskrifast, sé horft til bakgrunns þeirra. Ef litið er á alla brautskráða nemendur á framhaldsskólastigi skólaárið 2016-2017 sem hlutfall af mannfjölda á aldrinum 18-22 ára, þá hafa tæp 24% þeirra sem hafa íslenskan bakgrunn útskrifast þetta ár. Hins vegar hafa 16,5% þeirra sem eru fæddir erlendis, með annað foreldrið erlent, útskrifast þetta ár og rúm 8% innflytjenda.

Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Skiptinemar, sem koma til styttri dvalar á Íslandi, teljast með innflytjendum í þessum tölum. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Alls brautskráðust 19 af annarri kynslóð innflytjenda þetta ár og því vegur hver einstaklingur í þeim hópi þungt í tölunum á mynd 1.

Brautskráðir af framhaldsskólastigi eftir bakgrunni, % af mannfjölda 18-22 ára skólaárið 2016-2017

Brautskráðum nemendum fækkar frá fyrra ári
Skólaárið 2016-2017 brautskráðust samtals 10.235 nemendur á framhalds- og háskólastigi á Íslandi. Brautskráðum nemendum fækkaði um 617 (-5,7%) frá fyrra ári og átti sú fækkun sér aðallega stað á framhaldsskólastigi. Hluti skýringarinnar er, að vegna breytinga á námsskipan, voru fáir nemendur brautskráðir með verslunarpróf á framhaldsskólastigi vorið 2016 en árin á undan brautskráðust 2-300 nemendur með verslunarpróf árlega. Alls brautskráðust 5.098 nemendur af framhaldsskólastigi með 5.630 próf skólaárið 2016-2017, 645 færri en árið á undan (-11,2%). Stúlkur voru lítið eitt fleiri en piltar meðal brautskráðra, eða 51,2%.

Fleiri stúdentar fyrir tvítugt
Alls útskrifuðust 3.180 stúdentar úr 34 skólum skólaárið 2016-2017, 269 færri en skólaárið á undan. Konur voru 58,8% nýstúdenta. Hlutfall stúdenta af fjölda tvítugra var 69,8% og var þetta hlutfall síðast undir 70% skólaárið 2010-2011. Alls voru 24,6% stúdenta 19 ára og yngri en 44,0% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur farið hækkandi ár frá ári frá skólaárinu 2005-2006, að undanskildu skólaárinu 2012-2013. Skólaárið 2013-2014 voru 17,8% stúdenta 19 ára og yngri og 44,4% 20 ára. Stytting náms til stúdentsprófs er að litlu leyti komin til framkvæmda þau ár sem þessar tölur ná til. Aldur er miðaður við áramótin eftir útskrift.

Færri brautskráðust með sveinspróf og iðnmeistarapróf
Það voru 624 brautskráningar með sveinspróf skólaárið 2016-2017, sjö færri en árið áður. Brautskráningar með iðnmeistarapróf voru 154, heldur færri en árið á undan. Karlar voru rúmlega þrír af hverjum fjórum sem luku sveinsprófi (77,2%) og fjórir af hverjum fimm útskrifuðum iðnmeisturum (79,2%).

Færri brautskráðust úr háskólanámi
Alls útskrifuðust 4.479 nemendur með 4.498 próf á háskóla- og doktorsstigi og voru konur tveir af hverjum þremur (66,3%) þeirra sem luku háskólaprófi. Brautskráningum fækkaði um 2,3% frá fyrra skólaári (mynd 2). Alls voru 2.664 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu og brautskráningar með viðbótardiplómu voru 448. Þá voru 1.275 brautskráningar vegna meistaragráðu og 62 luku doktorsprófi.

Brautskráningar á háskólastigi 2001-2017

Hagstofan hefur einnig birt nýjar töflur um brautskráningar eftir námsbrautum á öllum skólastigum ofan grunnskóla.

Talnaefni
Framhaldsskólastig
Háskólastig