Alls útskrifuðust 3.965 stúdentar úr 35 skólum skólaárið 2017-2018, 785 fleiri en skólaárið á undan. Konur voru 59,2% nýstúdenta. Hlutfall allra stúdenta af fjölda tvítugra var 86,3% og hefur aldrei verið hærra. Þessi mikla fjölgun stúdenta skýrist af því að skólaárið 2017-2018 voru margir framhaldsskólar að útskrifa síðustu stúdentana úr fjögurra ára námi um leið og útskrifaðir voru fyrstu nemendurnir úr þriggja ára námi.
Alls voru 41,3% stúdenta 19 ára og yngri en 33,6% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hækkaði skarpt frá fyrra ári þegar það var 24,6%.
Fleiri brautskráðust með sveinspróf og iðnmeistarapróf
Skólaárið 2017-2018 voru 642 brautskráningar með sveinspróf, 18 fleiri en árið áður (2,9%). Brautskráðum iðnmeisturum fjölgaði umtalsvert og voru 235, eða 81 fleiri en árið á undan (52,6%). Karlar voru rúmlega fjórir af hverjum fimm sem luku sveinsprófi (81,8%) og iðnmeistaraprófi (80,4%).
Færri brautskráðust úr háskólanámi
Alls útskrifuðust 4.380 nemendur með 4.411 próf á háskóla- og doktorsstigi og fækkaði brautskráningum um 2,3% frá fyrra skólaári. Konur voru tveir af hverjum þremur (66,6%) þeirra sem luku háskólaprófi, þegar á heildina er litið, en 59,0% þeirra sem luku doktorsprófi. Alls voru 2.543 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu og brautskráningar með viðbótardiplómu voru 452. Þá voru 1.252 brautskráningar vegna meistaragráðu og 61 lauk doktorsprófi.
Tveir af hverjum þremur nýnemum hafa brautskráðst úr háskólanámi innan tíu ára
Haustið 2008 hófu 3.667 nám á háskólastigi á Íslandi í fyrsta skipti. Tíu árum síðar höfðu 66,5% þeirra útskrifast úr námi á háskólastigi, sem er sama hlutfall og meðal nýnema tveimur árum áður, þegar þessar tölur voru síðast birtar. Þó hefur dregið í sundur með kynjunum á þessu tveggja ára tímabili, þar sem 70,3% kvenna sem hófu háskólanám haustið 2008 höfðu lokið háskólanámi en 60,9% karla. Sambærilegar tölur fyrir nýnema haustið 2006 voru 69,2% fyrir konur og 62,2% fyrir karla.
Talnaefni
Framhaldsskólastig - brautskráningar
Háskólastig - brautskráningar