FRÉTT MENNTUN 15. JANÚAR 2020

Alls útskrifuðust 3.965 stúdentar úr 35 skólum skólaárið 2017-2018, 785 fleiri en skólaárið á undan. Konur voru 59,2% nýstúdenta. Hlutfall allra stúdenta af fjölda tvítugra var 86,3% og hefur aldrei verið hærra. Þessi mikla fjölgun stúdenta skýrist af því að skólaárið 2017-2018 voru margir framhaldsskólar að útskrifa síðustu stúdentana úr fjögurra ára námi um leið og útskrifaðir voru fyrstu nemendurnir úr þriggja ára námi.

Alls voru 41,3% stúdenta 19 ára og yngri en 33,6% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hækkaði skarpt frá fyrra ári þegar það var 24,6%.

Brautskráðir stúdentar eftir aldri 2001-2018

Fleiri brautskráðust með sveinspróf og iðnmeistarapróf
Skólaárið 2017-2018 voru 642 brautskráningar með sveinspróf, 18 fleiri en árið áður (2,9%). Brautskráðum iðnmeisturum fjölgaði umtalsvert og voru 235, eða 81 fleiri en árið á undan (52,6%). Karlar voru rúmlega fjórir af hverjum fimm sem luku sveinsprófi (81,8%) og iðnmeistaraprófi (80,4%).

Færri brautskráðust úr háskólanámi
Alls útskrifuðust 4.380 nemendur með 4.411 próf á háskóla- og doktorsstigi og fækkaði brautskráningum um 2,3% frá fyrra skólaári. Konur voru tveir af hverjum þremur (66,6%) þeirra sem luku háskólaprófi, þegar á heildina er litið, en 59,0% þeirra sem luku doktorsprófi. Alls voru 2.543 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu og brautskráningar með viðbótardiplómu voru 452. Þá voru 1.252 brautskráningar vegna meistaragráðu og 61 lauk doktorsprófi.

Brautskráningar á háskólastigi 2001-2018

Tveir af hverjum þremur nýnemum hafa brautskráðst úr háskólanámi innan tíu ára
Haustið 2008 hófu 3.667 nám á háskólastigi á Íslandi í fyrsta skipti. Tíu árum síðar höfðu 66,5% þeirra útskrifast úr námi á háskólastigi, sem er sama hlutfall og meðal nýnema tveimur árum áður, þegar þessar tölur voru síðast birtar. Þó hefur dregið í sundur með kynjunum á þessu tveggja ára tímabili, þar sem 70,3% kvenna sem hófu háskólanám haustið 2008 höfðu lokið háskólanámi en 60,9% karla. Sambærilegar tölur fyrir nýnema haustið 2006 voru 69,2% fyrir konur og 62,2% fyrir karla.

Talnaefni
Framhaldsskólastig - brautskráningar
Háskólastig - brautskráningar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.