FRÉTT MENNTUN 21. FEBRÚAR 2023

Alls útskrifuðust 5.214 nemendur með 5.248 próf á háskóla- og doktorsstigi skólaárið 2020-2021, 700 fleiri en árið áður (15,5%). Þar af voru brautskráningar með meistaragráðu rúmlega 300 fleiri en árið áður sem er 21,7% fjölgun.

Alls voru 2.774 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu, brautskráningar með viðbótardiplómu voru 592, 1.721 brautskráningar vegna meistaragráðu og 86 luku doktorsprófi. Eins og undanfarin ár voru konur um tveir þriðju nemenda sem luku háskólaprófi eða 68,0%.

Mest fjölgun á sviði menntunar
Brautskráningum á háskólastigi fjölgaði mest á sviði menntunar eða um tæp 34%. Næstmest fjölgaði á sviði verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerðar eða um 20,4%. Rúm 17% brautskráninga á háskóla- og doktorsstigi árið 2020-2021 voru úr svokölluðum STEM-greinum, þ.e. raunvísindum, tæknigreinum, verkfræði og stærðfræði. Í mörgum löndum er áhersla á fjölgun brautskráðra úr þessum greinum og fjölgaði brautskráðum hér á landi um 8,5% frá fyrra ári sem er minni fjölgun en meðaltalsfjölgun brautskráninga á háskólastigi.

Rúmlega helmingur brautskráðra stúdenta undir tvítugu
Alls útskrifuðust 3.717 stúdentar úr 35 framhaldsskólum skólaárið 2020-2021, 270 fleiri en skólaárið á undan (7,8%). Rúmlega helmingur (57,9%) stúdenta skólaárið 2020-2021 var 19 ára og yngri en 12,8% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur hækkað mikið síðustu ár í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs en 20 ára stúdentum hefur fækkað að sama skapi.

Fleiri með sveinspróf og hæfnipróf á framhaldsskólastigi
Skólaárið 2020-2021 fjölgaði brautskráningum á framhaldsskólastigi meðal þeirra sem luku hæfniprófi sem eru ýmis próf sem ekki leiða til starfsréttinda. Alls voru 628 brautskráningar með hæfnipróf, rúmum 20% fleiri en ári áður. Sem dæmi um nám sem leiðir til hæfniprófs má nefna listnám, nám stuðningsfulltrúa og nám í sjávarútvegi á framhaldsskólastigi.

Alls voru 657 brautskráningar með sveinspróf sem eru um 30 fleiri en árið áður. Hins vegar fækkaði brautskráningum með burtfararpróf úr iðn úr 868 í 842 en með því lýkur bóklega hluta iðnnáms.
Brautskráðir iðnmeistarar voru 259, nokkru fleiri en árið á undan.

Þegar á heildina er litið brautskráðust 5.548 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.497 próf skólaárið 2020-2021, 245 fleiri en árið áður (4,6%). Þá brautskráðust 806 nemendur af viðbótarstigi en á viðbótarstig flokkast nám sem er bætt ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi.

Talnaefni
Háskólastig
Framhaldsskólastig

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.