Skólaárið 2022-2023 voru 877 brautskráningar með sveinspróf og hafa aldrei verið fleiri. Sveinspróf voru 185 fleiri en árið áður sem er fjölgun um 26,7% og fleiri yngri nemendur luku sveinsprófi en árin á undan. Fjölgunin var mun meiri á meðal karla, eða 29,4%, en konum fjölgaði um 16,6%. Brautskráningum með burtfararpróf úr iðn fjölgaði einnig en með því lýkur bóklega hluta iðnnáms. Brautskráðir iðnmeistarar voru 293 og fækkaði um rúmlega 40 frá fyrra ári.
Brautskráðum stúdentum fækkar lítillega frá fyrra ári
Alls útskrifuðust 3.327 stúdentar úr 35 framhaldsskólum skólaárið 2022-2023, 56 færri en skólaárið á undan. Rúmlega sex af hverjum tíu stúdentum (63,2%) skólaárið 2022-2023 voru 19 ára og yngri en 13,5% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hækkaði mikið frá skólaárinu 2017-2018 í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs og hlutfall 20 ára af brautskráðum stúdentum lækkaði að sama skapi. Síðustu tvö ár hefur þó hægst á breytingum á aldursskiptingu stúdenta eins og sjá má á mynd 2.
Tæplega sex af hverjum tíu brautskráðum með sveinspróf 25 ára og eldri
Það vekur athygli hversu miklu munar á aldri þeirra sem ljúka stúdentsprófi annars vegar, og sveinsprófi hins vegar, en hvort tveggja eru lokapróf á framhaldsskólastigi á 3. hæfniþrepi. Á meðan rúmlega 60% þeirra sem luku stúdentsprófi skólaárið 2022-2023 voru yngri en tvítugir (sjá mynd 2) voru tæplega 60% brautskráðra með sveinspróf 25 ára og eldri og tæpur fjórðungur var 35 ára og eldri (sjá mynd 1).
Þess skal getið að algengast er að nám til stúdentsprófs sé 200 framhaldsskólaeiningar eftir að námið var stytt þar sem 30 einingar teljast vera fullt nám á önn. Nám til sveinsprófs er yfirleitt lengra en nám til stúdentsprófs, á mörgum námbrautum er það talið vera fjögurra ára nám og getur verið rúmlega 260 framhaldsskólaeiningar. Þá verja nemendur yfirleitt hluta námstímans í starfsnámi á vinnustöðum.
Fleiri brautskráðir á framhaldsskólastigi en færri á viðbótarstigi
Þegar á heildina er litið brautskráðust 5.446 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.604 próf skólaárið 2022-2023, 140 fleiri en árið áður (2,6%). Fjölgun brautskráðra á framhaldsskólastigi varð eingöngu meðal karla sem fjölgaði um 277 (9,0%) en konum fækkaði um 87 (-3,1%).
Brautskráðir nemendur af viðbótarstigi voru 916, um 50 færri en árið áður en rúmlega 100 fleiri en fyrir tveimur árum. Þessi fækkun helst að mestu í hendur við fækkun brautskráðra iðnmeistara. Á viðbótarstig flokkast nám sem er bætt ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi.
Aldrei fleiri brautskráðir af háskólastigi
Alls útskrifuðust 5.622 nemendur með 5.651 próf á háskóla- og doktorsstigi skólaárið 2022-2023, 177 fleiri en árið áður (3,3%). Aldrei hafa fleiri nemendur brautskráðst af háskóla- og doktorsstigi á einu skólaári. Konur voru 68,9% brautskráðra og fjölgaði um 4,9% frá fyrra ári en körlum fækkaði um 0,2%. Mest var fjölgunin á meðal þeirra sem luku viðbótardiplómu en þeim brautskráningum fjölgaði um 18,8%.
Það voru 85 brautskráningar með grunndiplóma á háskólastigi, 2.917 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu, brautskráningar með viðbótardiplómu voru 797, 1.753 með meistaragráðu og 99 með doktorspróf. Aðeins einu sinni áður hafa fleiri lokið doktorsgráðu en það var skólaárið 2018-2019 þegar 101 lauk doktorsprófi.
Sundurliðaðar upplýsingar um útskrifaða nemendur og fjölda brautskráninga má sjá á vef Hagstofu Íslands.
Talnaefni
Framhaldsskólastig
Háskólastig