Samanlagðar tekjur fjölmiðla af birtingu og flutningi auglýsinga, ásamt tekjum af kostun, námu ríflega 9,8 milljörðum króna á síðasta ári. Auglýsingatekjur miðlanna drógust saman um fimm af hundraði frá fyrra ári. Reiknað á meðalverðlagi ársins 2008 rýrnuðu auglýsingatekjurnar um 15 af hundraði.
Af þeim flokkum fjölmiðla sem tölur um auglýsingatekjur ná til, féll stærstur hluti tekna af auglýsingum á síðasta ári til fréttablaða (dagblaða og vikublaða), eða 58 af hundraði. Ríflega fjórðungur af auglýsingatekjum fjölmiðla rann til sjónvarps. Því næst kom hljóðvarp með 14 af hundraði. Restina ráku kvikmyndahús, mynddiskar og myndbönd með samanlagt laust innan við tvo af hundraði teknanna. Skipting auglýsingatekna milli miðla hefur haldist að mestu óbreytt um árabil.
Tölur um auglýsingatekjur fjölmiðla eru fengnar úr árlegri gagnasöfnun Hagstofunnar meðal fjölmiðlafyrirtækja. Tekjur af birtingu auglýsinga á vef eru inni í tölum um auglýsingatekjur fjölmiðla.