FRÉTT MIÐLUN 21. APRÍL 2009

Hagstofa Íslands sendir nú frá sér tölur um bókaútgáfu áranna 1999–2007 í tilefni af alþjóðlegum degi bókarinnar, 23. apríl. Á árinu 2007 komu út 1.533 titlar bóka (að meðtöldum ritlingum, 5–48 síður). Það jafngildir 4,9 bókum á hverja 1.000 íbúa. Á næstliðnum árum hefur útgefnum bókum fækkað lítillega, eða um 153 frá því að flestar bækur komu út árið 2000. Það ár voru sex bækur gefnar út á hverja 1.000 íbúa (sjá myndir 1 og 2).


 

Langflestar þeirra bóka sem gefnar eru út ár hvert eru íslensk höfundarverk, rituð á íslensku, eða sjö af hverjum tíu útgáfum. Hlutur þýðinga hefur þó aukist jafnt og þétt á árabilinu, en hlutfall þýðinga árið 1999 var 22 af hundraði. Þýðingar úr ensku eru langsamlega flestar. Ríflega sex af hverjum tíu þýddum bókum sem út voru gefnar árið 2007 voru þýðingar úr ensku.

Árið 2007 skiptist bókaútgáfan þannig að af hverjum 100 útgefnum titlum voru rit almenns efnis 77, fyrir börn og unglinga 18, og fimm kennslu- og námsbækur (sjá mynd 3). Hlutur bóka fyrir börn og ungmenni hefur aukist nær samfellt frá 1999, eða úr tæpum tíu af hundraði.

 

Tölur um útgefnar bækur eru teknar saman árlega úr rafrænni Íslenskri útgáfuskrá Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og birtar á vef Hagstofunnar. Upplýsingar Íslenskrar útgáfuskrár eru byggðar á upplýsingum úr bókasafnskerfinu Gegni og á skylduskilum útgefenda rita til Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Skráin er uppfærð reglulega og í henni birtist það efni sem til hefur náðst. Niðurstöður talningar úr grunninum eru því ekki samhljóða frá einum tíma til annars. Hér er miðað við stöðu skráningar í skrána þann 16. apríl 2009.

Tölulegur samanburður bókaútgáfunnar við fyrri ár er bundinn nokkrum annmörkum. Kemur það til af því að skráningu útgefinna rita var breytt samfara því sem Íslensk útgáfuskrá leysti Íslenska bókaskrá af hólmi fyrir fáum árum. Íslensk útgáfuskrá nær aðeins aftur til ársins 1999. Á vef Hagstofunnar eru birtar eldri tölur um bókaútgáfuna samkvæmt Íslenskri bókaskrá, eða frá 1965 fram til loka árs 2000.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.